Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nú þarf að draga lærdóm af stöðunni

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir sérstaklega ánægjulegt að engin ný smit hafi greinst á Vestfjörðum, Vestmannaeyjum og Hvammstanga síðustu sólarhringa, þar sem komu upp hópsýkingar fyrir nokkrum vikum. Tvö smit greindust á veirufræðideild Landspítalans í gær en um 400 sýni voru tekin.

Þórólfur sagði á blaðamannafundi almannavarna í dag að þrátt fyrir jákvæð tíðindi þá megi alltaf búast við að einstaka tilfelli greininst. Þessum fyrsta kafla í báráttunni við veiruna sé að ljúka en mikil vinna sé þó áfram fram undan. Fara þurfi vel yfir gögn sem hafa safnast hér vegna faraldursins til þess að draga lærdóm af stöðunni. Fram kom í máli Þórólfs að gögnin sýni nú þegar meðal annars að:

  • Kynjahlutfall hjá smituðum er jafnt en fleiri sýni þó tekin hjá konum.
  • Meðalaldur smimtaðra er um 40 ár.
  • Sýkingar hjá börnum hafa verið mjög fátíðar.
  • 16% sýkinga greindust hjá fólki 60 ára og eldri.
  • 70% sýkinga greindust á höfuðborgarsvæðinu, 10% á Suðurlandi og 5% á Vestfjörðum, þar sem voru flest smit miðað við höfðatölu.
  • Af þeim 113 sem hafa verið á sjúkrahúsi er 60% karlar og meðalaldur 60 ár. Aldursbilið er vítt, meðal annars hefur barn þurft að leggjast inn og 96 ára einstaklingur.
  • Af 30 sem hafa lagst inn á gjörgæslu voru 70% karlmenn og meðalaldurinn 61 ár. Aldursdreifingin er frá 37 árum upp í 76 ár.
  • Fimm karlar og fimm konur hafa látist hér á landi vegna veirunnar.  Meðalaldurinn var 71 árs. Sá yngsti sem lést var 36 ára og sá elsti 87 ára.

Ætlar ekki til útlanda í sumar

Þórólfur ítrekaði á fundinum að faraldrar komi aftur og aftur.  Því sé mikilvægt að taka saman þessa reynslu og læra af henni. Það sé gagnlegt fyrir okkur og aðra. Fólk þurfi áfram að vera við öllu búið og ekki megi taka neinu sem gefnu þó Covid-19 sé í logni. Óvissuþættirnir séu áfram stórir og til að mynda ekki hægt að segja til um hvenær Íslendingar geti aftur farið að huga að utanlandsferðum. 

„Sjálfur ætla ég ekki að skipuleggja neinar utanlandsferðir á þessu ári,“ segir sóttvarnarlæknir. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV