Í folfi, fótafimi eða fljúgandi á svifvængjum

26.04.2020 - 19:31
Mynd: Björn Rúnar Guðmundsson / RÚV
Fjöldi fólks skemmti sér í folfi og svifvængjaflugi í dag og þið megið telja hvað eru mörg eff í því. Fólk naut veðurblíðunnar í dag ýmist á jörðu niðri eða skýjum ofar.

Himininn varð óvænt talsvert litríkari en venjulega yfir Herdísavík á Suðurnesjum í dag þegar litskrúðugir vængir svifu um loftin blá.

Þar voru komnir saman nokkrir svifvængjaflugmenn. Þegar farið er í svifvængjaflug með frjálsri aðferð þarf að toga menn á loft. Togvél er fest á bíl og úr henni spotti í svifvængjuna. Þegar bílnum er ekið af stað tekst svifvængjaflugmaðurinn á loft.

„Við stundum þetta allt árið. Við erum kannski 5 á Íslandi sem gerum það í dag. En venjan er að tímabilið byrji í apríl og endi í september, október,“ segir Björn Rúnar Guðmundsson.

Þeir sem sleiktu sólina á Klambratúni í Reykjavík kunnu ekkert síður að meta blíðuna. Sumir spreyttu sig á frísbígolfi eða folfi eins og það kallast. Aðrir æfðu fótafimina og spörkuðu milli sín bolta. Aðrir höfðu komið sér fyrir á teppi og sóluðu sig.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi