Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafnarfjörður skoðar sölu á HS Veitum vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum fyrir helgi að hefja undirbúning að mögulegri sölu á hlut sveitarfélagsins í HS Veitum. Bærinn á rúmlega 15% hlut í fyrirtækinu og er þriðji stærsti hluthafinn.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að þetta sé gert vegna tekjusamdráttar á móti auknum útgjöldum vegna kórónuveirufaraldursins. Það bil verði aðeins brúað með aðhaldsaðgerðum, lántökum og eða sölu eigna.

„Í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu teljum við eðlilegt að kannaður sé áhugi fjárfesta á eignarhlut bæjarins í HS  Veitum í opnu ferli. Fáist ásættanlegt kauptilboð í hlutinn þá seljum við hann, ef ekki þá eigum við hlutinn áfram,“ er haft eftir Rósu í tilkynningu.

Meirihlutinn leggur áherslu á að eignarhlutur Hafnarfjarðar í HS Veitum hafi engin áhrif á verð á rafmagni til Hafnfirðinga, sem er helsta þjónusta fyrirtækisins við bæinn, þar sem gjöld vegna dreifingar raforku eru bundin ströngum skilyrðum í lögum.

Ekki rétt að selja grunnþjónustu til einkaaðila

Í fundargerð bæjarráðs segir að fulltrúar Samfylkingarinnar og Miðflokksins styðji ekki undirbúninginn að sölunni. Í bókun Öddu Maríu Jóhannsdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar, sagði að sala á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu í hendur einkaaðila sé ekki rétta leiðin til að standa undir auknum útgjöldum. Í bókun Sigurðar Þ. Ragnarssonar, fulltrúa Miðflokksins, sagði að bíða ætti með söluferlið þangað til fyrir liggi hvort og þá hverjar aðgerðir ríkisins verða fyrir sveitarfélögin. 

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, fulltrúi Bæjarlistans, sat hjá í atkvæðagreiðslu og gagnrýndi að tillagan komi fram með stuttum fyrirvara og litlu svigrúmi til umræðu. Þá bókaði Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar, að afstaða hans muni ráðast af þeim kjörum sem fáist fyrir hlutinn.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV