Er enn að vinna úr heimilisofbeldi í æsku

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Er enn að vinna úr heimilisofbeldi í æsku

26.04.2020 - 19:25
Damir Muminovic leikmaður Breiðabliks í fótbolta opnaði sig á dögunum um eigin upplifun af heimilisofbeldi. Fyrst á Twitter og svo hjá fotbolta.net. Hann segir stutt síðan hann gat farið að tala um þessa hluti og finnst það enn erfitt.

Damir Muminovic, sem er á sínu þrítugasta aldursári, er á leiðinni í sitt fjórtánda tímabil í meistaraflokki í fótbolta. Damir er fæddur í smábæ í Serbíu en kom hingað til lands fyrir rétt tæpum tuttugu árum.

Þegar Damir er þriggja ára fer faðir hans frá fjölskyldunni um miðja nótt og hefur Damir aldrei heyrt frá honum. Sjö árum síðar ákveða mæðginin að flytja til Íslands þar sem móðurbróðir hans, Boban Ristic, var þá að spila með Stjörnunni í úrvalsdeildinni hér heima og gat útvegað systur sinni vinnu. Honum leist þó ekki vel á þá hugmynd í fyrstu að flytja til Íslands.

„Alls ekki vel. Allir vinir mínir voru úti og það var mjög erfitt að fara frá þeim og ömmu og afa. Mig langaði bara heim eftir tvær vikur. Við komum hingað yfir sumartímann og ég man að ég gat ekkert sofið, það var bara dagur alla nóttina og ég vissi ekkert um þetta. Ég vissi ekkert hvar Ísland væri eða hvert við værum að fara.“ sagði Damir en hann opnaði sig meðal annars um erfiðleika og heimilisofbeldi sem hann varð vitni af og varð sjálfur fyrir í hlaðvarpsþættinum Miðjan á Fótbolta.net í vikunni. 

„Mér finnst alveg erfitt að tala um þetta. Ég er að verða þrítugur og það eru einhver 10 plús árum seinna sem ég er að tala um þetta. Við bjuggum bara saman, ég mamma og kærastinn hennar. Og ég veit ekki hvort þetta gekk á frá degi eitt eða hvað, en ég hef alveg orðið vitni af heimilisofbeldi. Þannig séð grófu heimilisofbeldi, þegar ég var 15-16 ára. Og ég vissi einhvern veginn ekki alveg hvernig ég ætti að höndla það.”

Damir segir að hann hafi verið tæplega tvítugur þegar hann fattar að þetta var ekki eðlilegt og út braust verndartilfinning gagnvart móður sinni en honum þótti erfitt að tjá sig um þetta. 

„Ég þorði ekkert að tala um þetta, þorði ekkert að segja neinum frá þessu og ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Ég tjáði mig á Twitter um daginn með þetta og ég hugsaði mig alveg lengi um hvort ég ætti að gera það. Því ég vissi þá að þetta myndi koma upp með sjálfan mig.“

„Ég mæli með að ung börn tjái sig við bara hvern sem er, það þarf ekki að vera lögreglan. Bróðir, systir, amma, afi, vinir, hver sem er. En eins og ég segi, það á ekkert barn að þurfa að ganga í gegnum þetta.“

Sumarið 2017 lést móðir Damirs úr erfiðum veikindum og segir Damir að það sé enn sárt að hugsa um þennan tíma.

„Eftir að mamma mín deyr sko hef ég ekkert rætt þetta við þannig séð marga. Ég hef alveg fengið hjálp frá fjölskyldunni minni og barnsmóður minni og allt það, og á þeim alveg mikið af þakka, en ég bara tala aldrei um þetta. Af því að mér finnst það mjög erfitt. Mér finnst mjög erfitt að fara í kirkjugarðinn og heimsækja móður mína. Sérstaklega þegar börnin mín eru með mér, stelpan mín talar endalaust um hana.“

Damir sér eftir því að hafa ekki rætt við einhvern, sama hvern, á þessum tíma og segir að það hefði breytt miklu fyrir hann sem manneskju hefði hann gert það. 

„Í dag, ef ég gæti spólað til baka þá myndi ég klárlega gera það.“