Æfir júdó á fótboltavelli

Mynd: Instagram / Instagram

Æfir júdó á fótboltavelli

26.04.2020 - 19:05
Júdókappinn Sveinbjörn Iura tapaði talsverðum fjárhæðum þegar hætt var við hin ýmsu mót snemma í mars þegar kórónuveirufaraldurinn breiddist út. Hann stefnir þó áfram ótrauður á Ólympíuleikana.

 

Við hittum Sveinbjörn í dag á Framvellinum í Safamýri þar sem hann æfði, en takmarkanirnar eru talsverðar fyrir júdófólk þessa dagana.

„Þetta er sérstaklega erfitt fyrir okkur glímukappana því það er mikil nánd og snertingar. Við höfum reynt að aðlaga okkur og halda okkur í formi,“ sagði Sveinbjörn í samtali við RÚV

Sveinbjörn var staddur í Frakklandi í byrjun mars og á leið á mót í Suður-Ameríku þegar mótunum var skyndilega aflýst og Sveinbjörn tapaði því talsverðu fé á flugsætum sem ekki fengust endurgreidd.

„Þetta voru styrkir sem ég var búinn að safna mér persónulega í gegnum fyrirtæki og það var þvílíkt sárt að tapa þessu svona.“

Sveinbjörn veit ekki hvenær hann getur haldið áfram að safna stigum á heimslistann, en markmiðið er enn að komast á Ólympíuleikana í Tókýó.