Stórt vatnstjón, eldur í gámi og fótbrot á Úlfarsfelli

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Það hefur verið töluverður erill hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í dag. Nú er verið að klára að ráða niðurlögum elds sem kviknaði í pappagámi við Varmárskóla í Mosfellsbæ, en gámurinn verður svo tekinn upp á bíl og sturtað úr honum svo hægt sé að slökkva eld að fullu.

Í morgun var stórt útkall í Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Bilun í sundlaugarkerfi varð til þess að fleiri hundruð þúsund lítrar af vatni dældust í kjallara hússins. Nokkra klukkutíma tók að dæla út vatninu og vitað er um tjón á gólfefnum í líkamsræktarstöð World Class sem er þar til húsa að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.

Þá barst tilkynning um klukkan hálf tvö um slasaða konu á Úlfarsfelli. Það þurfti að notast við sexhjól og fjallabíl til þess að komast að henni, en hún var að lokum flutt á slysadeild og er líklega fótbrotin.

Að auki hafa verið hátt í fjörutíu sjúkraflutningar í dag, sem er talsvert miðað við laugardag að sögn varðstjóra.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi