Sendiherra gagnrýnir vinnubrögð vegna heimkomu sinnar

25.04.2020 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Þorfinnur Ómarsson, EFTA
Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, furðar sig á því að utanríkisráðuneytið hafi rofið trúnað vegna heimkomu sinnar í sumar. Hann var gagnrýndur af ráðuneytisstjóra fyrir að hafa takmarkað viðveru starfsfólks í sendiráðinu í Brussel vegna kórónuveirufaraldursins.

Eins og fréttastofa greindi frá í dag í kjölfar upplýsinga frá ráðuneytinu baðst Gunnar undan tilflutningi á aðra sendiskrifstofu, sem átti að vera hluti af stærri tilfærslum í utanríkisþjónustunni. Það sé ástæða þess að hann snúi heim í sumar. Gunnar segir í svari til Vísis að það sé hálfsannleikur.

Gunnar segir að yfirstjórn ráðuneytisins hafi haft óeðlileg afskipti af sóttvarnaraðgerðum sem hann greip til á sendiskrifstofunni í Brussel svo hægt væri að vernda starfsfólk fyrir smiti. Ráðuneytisstjóri hafi talið það of langt gengið á þeim tíma. 

Í kjölfarið hafi Gunnari verið tilkynnt að senda ætti hann til Indlands, en hann baðst undan flutningi þangað af fjölskylduástæðum. Gunnar segist í svari til Vísis hafa verið krafinn um skriflega staðfestingu á því, sem séu óvenjuleg vinnubrögð að hans mati. 

Þá gagnrýnir hann ráðuneytið fyrir að tjá sig opinberlega um málið og honum ekki gefinn kostur á að segja sína hlið. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi