Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rússar höfða mál gegn Finnum fyrir þjóðarmorð

25.04.2020 - 07:09
Mynd með færslu
 Mynd: Ninara - Flickr.com
Rússnesk rannsóknarnefnd greindi frá því í vikunni að Finnar verði ákærðir fyrir þjóðarmorð vegna aðgerða þeirra í Karelíu í síðari heimsstyrjöldinni. Í skýrslu nefndarinnar segir að minnst átta þúsund Rússar hafi verið drepnir í fangabúðum Finna. Finnar eru sagðir hafa drepið fólk í gasklefum, skotið það til bana eða grafið lifandi.

Í fréttatilkynningu rússnesku rannsóknarnefndarinnar, sem heyrir undir forsetann Vladimir Pútín, segir að Rússar hafi verið í haldi Finna í 14 fangabúðum hið minnsta. Búðirnar eru raunar kallaðar útrýmingarbúðir í skýrslu nefndarinnar, þar sem aðstæður og aðbúnaður voru þannig að það átti greinilega ekki að halda fólkinu á lífi. Alls eru rúmlega 24 þúsund Rússar sagðir hafa verið í haldi Finna á milli áranna 1941 og 1944. yfir átta þúsund voru drepnir, þar á meðal tvö þúsund börn, að sögn Rússa. 

Fréttastofa finnska ríkisútvarpsins YLE hefur eftir Jussi Nuorteva, stjórnanda þjóðskjalasafns Finnlands, að honum þyki miður að Rússar leggi þessar ásakanir fram sem staðreyndir. Engin skjöl séu til sem styðja við mál þeirra. Sérstaklega ásakanir um að Finnar hafi drepið fólk í gasklefum eða grafið það lifandi. Hann kveðst fullviss um að það hefði spurst út eftir stríð ef Finnar hefðu notað gasklefa.

Segjast hafa nóg af sönnunargögnum

Rannsóknarnefndin kveðst hafa skjöl leyniþjónustunnar FSB til hliðsjónar í rannsókn sinni. Eins segist nefndin ætla að yfirheyra þá rúmlega tvö þúsund fyrrverandi fanga sem enn eru á lífi og búa í Karelíu. Nefndin segist hafa nóg af sönnunargögnum til að sýna fram á stríðsglæpi Finna og glæpi gegn mannkyninu. Þá segir að nefndin ætli að „halda áfram að rannsaka glæpi nasista í föðurlandsstríðinu mikla gegn hinni friðsömu sovésku þjóð."
Rússneskir fjölmiðlar hafa eftir finnska utanríkisráðuneytinu að þar hafi menn fengið veður af rannsókninni fyrir nokkru. Málið hafi verið rannsakaði í þaula skömmu eftir stríð. Ef Rússar búi yfir nýjum gögnum eigi þeir að birta þau opinberlega svo aðrir geti einnig rannsakað málið. YLE tekur fram að fréttastofa þeirra hafi ekki séð fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um málið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV