Hljóp maraþon til styrktar meistaraflokkum Stjörnunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hljóp maraþon til styrktar meistaraflokkum Stjörnunnar

25.04.2020 - 17:00
Frá því að kórónaveiran fór að herja á heimsbyggðina hafa hinir ýmsu styrktarleikir íþróttafélaga notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum. Sumir taka þetta skrefinu lengra, eða 42,2 kílómetrum lengra, það á við í tilviki Almars Guðmundssonar sem hljóp maraþon til styrktar meistaraflokka Stjörnunnar í knattspyrnu í dag.

Ljóst er að þessi heimsfaraldur mun koma til með að hafa áhrif á fjárhag félaga í öllum íþróttagreinum út um allan heim. Innkoman er lítil sem engin en útgjöldin haldast nokkurn vegin þau sömu.

Almar Guðmundsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, styrkti Garðabæjarliðið um ríflega upphæð og minnir á að reikningurinn er enn opinn þrátt fyrir að hlaupið sé yfirstaðið. Í morgun hljóp Almar maraþon, 42,2 kílómetra á þremur klukkustundum og 28 mínútum og safnaði í leiðinni pening fyrir félagið sitt.

„Takk fyrir stuðninginn kæru vinir. Ég hleyp 42,2 km í fyrramálið til styrktar meistaraflokka Stjörnunnar í knattspyrnu karla og kvenna. Þegar hafa safnast um 600þúsund krónur eða næstum því 15 þúsund krónur á hvern kílómetra. Við vonum að eitthvað bætist við enda ennþá galopið fyrir framlög," skrifaði Almar á Facebook í gær.