Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

COVID: Tvöfalt fleiri karlar en konur á gjörgæslu

25.04.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Tvöfalt fleiri karlar en konur hafa þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild Landspítalans af völdum kórónuveirunnar. Karlar verða yfirleitt meira veikir af völdum smitsjúkdóma segir sóttvarnalæknir. Nærri því jafnmargar konur og karlar hafa greinst með COVID-smit en sýni hafa verið tekin úr fleiri konum en körlum.  

Karlar verða meira veikir, segir Þórólfur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að karla hafa veikst verr og fengið meiri einkenni en konur:

„Það er bara vel þekkt í smitsjúkdómum að karlar fái yfirleitt verri einkenni og veikjast meira heldur en konur.“

Í tölulegum upplýsingum á covid.is kemur fram að 899 konur hafa nú greinst með COVID hérlendis en 890 karlar. 

Sýni jákvæð úr 11% kvenna en 16% karla

Í vísindagrein Íslenskrar erfðagreiningar í New England Journal of Medicine sem birt var 14. apríl kemur fram að færri konur hlutfallslega hafi verið greindar með smit í sýnum teknum fyrir 4. apríl. 

Þannig hafi 11% prósent sýna úr konum sem greind voru á veirufræðideild Landspítalans verið jákvæð en 16,7% sýna úr körlum. Veirufræðideild skoðar sýni úr þeim sem talið er að geti verið með einkenni smits. 

Og í skimun Íslenskrar erfðagreiningar eftir samfélagssmiti hafi 0,6% sýna úr konum verið jákvæð en 0,9% karla hafi reynst smitaðir af COVID. 

Fleiri sýni tekin úr konum en körlum

Fleiri sýni hafa verið tekin úr konum en körlum. Þannig eru rúm 60% sýna á veirufræðideild úr konum og 55% sýna í samfélags skimun úr konum. 

56 karlar lagðir inn en 45 konur

Í gær höfðu samtals 103 verið lagðir inn á Landspítalans með kórónuveirusmit. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum þegar samtals 101 sjúklingur hafði verið lagður inn skiptist hlutfallið milli kynjanna þannig að 56 karlar höfðu verið lagðir inn en 45 konur. 

Í hópi COVID sjúklinga á fimmtugs-, sextugs- og sjötugsaldri voru um tvöfalt fleiri karlar en konur. Tólf karlar og fimm konur á fimmtugsaldri hafa verið lögð inn, tólf karlar og fimm konur á sextugsaldri og 20 karlar og tólf konur á sjötugsaldri.

Í öðrum hópum var ýmist jafnt kynjahlutfall eða konur fleiri. Tíu karlar og níu konur á áttræðisaldri hafa lagst inn á spítalann, þrír karlar á níræðisaldri og níu konur hafa verið lagðar inn en enginn karl á tíræðisaldri en fjórar konur. Ef litið er á yngri aldurshópa þá hafa þrír karlar og tvær konur á fertugsaldri verið lögð inn en einn karl og þrjár konur á þrítugsaldri. 

17 karlar og níu konur á gjörgæslu

Mestur munur á kynjunum er á gjörgæsludeild Landspítalans. Þar lætur nærri að tvöfalt fleiri karlar en konur hafi legið. Níu konur hafa verið lagðar inn á gjörgæsludeild en sautján karlar, þar af einn í tvisvar.