Aukið ofbeldi og harka í fíkniefnaheiminum

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, telur að hægt sé að tengja aukið ofbeldi og hörku í fíkniefnaheiminum með beinum hætti við ástandið sem nú ríkir í samfélaginu vegna Covid-19. Þetta sagði hún á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Okkur er sagt að það sé aukin harka í fíkniefnaheiminum. Það er komin framleiðsla á basa og fleira hérna, og við höfum séð það í gegnum þau mál sem við höfum verið að taka,“ sagði Sigríður Björk á fundinum. 

Hún bendir á að verð á fíkniefnum hafi hækkað í nágrannalöndunum undanfarið, enda skertar samgöngur víðast hvar. Efnin hafa aftur á móti ekki hækkað hér á landi. 

„Það bendir til að það sé mikið framboð af efnum hér, sem er áhyggjuefni. Hins vegar getur verið erfiðara að brjótast inn og fjármagna neysluna. Þannig það getur verið að þess vegna sé innheimtan orðin harkalegri.“ segir Sigríður Björk.

Heimilisofbeldi hefur aukist um 10 prósent miðað við sama tíma í fyrra, að því er fram kom í máli Sigríðar á fundinum. Þá virðist aukin harka vera að færast í líkamsárásir. Óvenjumargar alvarlegar árásir hafa verið gerðar síðustu vikur.

Í fyrradag komu tvö mjög alvarleg mál inn á borð lögreglu. Annars vegar var sautján ára drengur úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa stungið annan dreng í Breiðholti og hins vegar voru þrír menn handteknir eftir fólskulega árás á mann í Kópavogi. Einn þeirra var hnepptur í sex daga gæsluvarðhald. Fórnarlambið er enn í lífshættu eftir árásina. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi