Vill vorveiðar á heiðagæs til að minnka tjón í túnum

24.04.2020 - 20:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Gæsir flykkjast til landsins og á Suðausturlandi eru ræktuð tún efst á matseðlinum, bændum til mikils ama. Bóndi í Nesjum í Hornafirði skorar á stjórnvöld að leyfa vorveiðar á heiðagæs. Stofninn hefur margfaldast á síðustu áratugum.

Þegar gæsin er búin að fljúga yfir hafið og lendir á ströndum Íslands hefur hún ágæta matarlyst. Grágæs og heiðagæs eru komnar til að hafa það gott á Íslandi og verpa. Helsingi er farinn að verpa hér umtalsvert en flestir þeirra halda áfram til varpstöðva á Grænlandi. Hann er fargestur hér eins og blesgæs og margæs sem fá sér í svanginn á vesturleið. Bændur tala um að vortún séu svört af gæs og Eiríki á Seljavöllum blöskrar hvað hún étur. Hann sér á eftir nýsprettunni ofan í fuglinn og rýkur í bílinn til að flauta þær upp. „Þær eru bara komnar svo fljótt aftur. Alltaf eykst vandinn ár frá ári og það virðist ekki vera neinn áhugi hjá opinberum aðilum að taka á þessu vandamáli. Gæsin tekur svona upp undir hálfa uppskeru. Hún seinkar slætti hjá manni um svona hálfan mánuð eða alla vega tíu daga.  Ég held að þær borði svona sem samsvari upp undir 20 kýrfóðrum,“ segir Eiríkur.

Þrjár rúllur tapast á hektara

Náttúrustofa Suðausturlands hefur rannsakað áhrif gæsar á uppskeru bænda. Hún minnkaði um fjórðung samanborið við reiti sem verndaðir voru fyrir gæsabeit; þrjár heyrúllur tapaðar á hvern hektara. Heiðagæsastofninn hefur stækkað mjög og telur um 440 þúsund fugla. „Ég held að það sé eitt af því sem þarf að gera er að leyfa vorveiði á gæs. Þetta er svo ofboðslegur fjöldi. Þetta er bara eins og sviðin jörð þegar hún verður búin að vera hérna. Hún hreinsar þetta algjörlega upp. Þennan nýgræðing sem er að koma upp úr.“

Bendir bændum á að setja fælur út snemma

Á árum áður vor oft veittar undanþágur fyrir vorveiði á gæs til að verjast tjóni en það hefur ekki verið tíðkað lengi. Arnór Sigfússon, fuglafræðingur hjá VERKÍS, segir að hann hafi oft ráðlagt bændum að setja fælur út snemma eða fyrir mánaðamótin mars/apríl og áður en gæsin lendir. Þegar hún sé lent og hefur ákveðið að gott sé að bíta á túni fari hún ekki svo glatt aftur. Ekki fyrr en hún víkur úr túnum til að verpa en þá tekur álftin við. „Álftin hinsvegar geldfuglinn; við erum að glíma við hana meira og minna allt sumarið. Það þarf náttúrulega bara að fækka henni verulega. Það er alveg glórulaust að vera að ala allar þessar álftir.“

Stofninn vex

Heiðagæsastofninn var talinn rúmlega 30 þúsund fuglar um 1950. Um 1980 er stofninn kominn í 100 þúsund fugla og hann tvöfaldast til 1990. Þá virtist hann vera kominn í jafnvægi en upp úr aldamótum byrjar stofninn á vaxa á ný og fór yfir hálfa milljón árið 2015. Þá eru grágæsir áætlaðar 58 þúsund. Helsinginn er talinn á fimm ára fresti og er grænlensk/íslenski stofninn talinn um 72 þúsund fuglar. Gripið hefur verið til aðgerða til að fækka honum á eyjunni Islay við vesturströnd Skotlands. Blesgæsir eru taldar um 21.500 fuglar og margæsastofninn um 35 þúsund.

Horfa á frétt