Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 30% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi

24.04.2020 - 18:34
epa08345394 Police stand guard outside St.Thomas's Hospital in London, Britain, 06 April, 2020. According to news reports British Prime Minister Boris Johnson is being treated for Coronavirus at St.Thomas's. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA - RÚV
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað um þriðjung í Lundúnum á síðustu sex vikum. Lögregluyfirvöld segja í tilkynningu í dag að útgöngubannið, sem hefur verið í gildi þar í landi í fimm vikur, hafi reynst mikilvægt til að hefta útbreiðlu COVID-19. Hins vegar hafi það einangrað þolendur heimilisofbeldis. Um hundrað manns hafa verið handteknir á hverjum degi fyrir slík brot í Lundúnum síðan útgöngubann tók gildi.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði fyrr í mánuðinum að vernd kvenna ætti að vera á meðal forgangsatriða í aðgerðum og viðbrögðum við COVID-19. „Fyrir fjölda kvenna og stúlkna er ógnin mest þar sem þær ættu að vera öruggastar. Inni á heimilum þeirra,“ sagði hann. Í Frakklandi fékk lögreglan rúmlega 30 prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi eftir að útgöngubann tók gildi. Þá eru merki um það í Kína að heimilisofbeldi hafi aukist á meðan faraldurinn var í hámarki þar í landi.

Á Íslandi hefur tilkynningum um heimilisofbeldi sömuleiðis fjölgað miðað við sama tíma í fyrra. Í janúar var tilkynnt um 80 heimilisofbeldisbrot, 73 í febrúar, 74 í mars og 63 1. til 20. apríl. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda til að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins eru 215 milljónir króna settar í átak gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Til stendur að styðja við Barnahús og hjálparsímann 1717 auk félagasamtaka sem sinna ráðgjöf. Auk þess verður samstarf lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar styrkt.