Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur vænlegra að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu

24.04.2020 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Skipulagsstofnun telur vænlegra að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu meðfram Reykjanesbraut í stað loftlínu sem er fyrsti kostur Landsnets. Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnar um mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2.

Suðurnesjalína tvö verður um 32 til 34 kílómetra löng 220 kV háspennulína á milli tengivirkis við Hamranes í Hafnarfirði og tengivirkis við Rauðamel í Grindavíkurbæ og er ætlað að bæta raforkuöryggi á Suðurnesjum. Línan er í aðgerðalista stjórnvalda til að styrkja innviði landsins í kjölfar óveðranna sem gengu yfir landið í vetur. Núna er ein 132 kV raflína frá Hamranesi að Fitjum í Reykjanesbæ þannig að ef hún fer skyndilega úr rekstri er nær undantekningarlaust straumlaust á Suðurnesjum. 

Sex kostir hafa komið til tals: Jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1, jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut, loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1 með sveig til suðurs innan sveitarfélagsmarka Hafnarfjarðar, loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1 og inn í Hafnarfjörð, loftlína og jarðstrengur að hluta þar sem línan er næst Reykjanesbraut og loftlína þar sem línan yrði á sameiginlegum möstrum með Suðurnesjalínu 1 að hluta. 

Jarðstrengsleiðin er dýrasti kosturinn með 4,3 milljarða stofnkostnaði, segir í matsskýrslunni. 

Fyrsta val Landsnets er loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1 með sveig til suðurs innan sveitarfélagsmarka Hafnarfjarðar. Stofnkostnaður þessarar leiðar er 2,3 milljarðar króna. 

Jarðstrengur hefði minna neikvæð áhrif

Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda. 
Skipulagsstofnun telur umhverfismat Suðurnesjalínu 2 hafa leitt í ljós að jarðstrengur sé best til þess fallinn að vinna að því markmiði. Þannig verði minna um neikvæð áhrif á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu, útivist og lífríki. Fyrsti kostur Landsnets hefði hins vegar neikvæðustu áhrifin á þessa þætti. Þá geti einnig verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut með tilliti til náttúruvár. 

Sömuleiðis telur Skipulagsstofnun jarðstreng vænlegri kost en loftlínu þegar litið sé til framtíðar; þróunar byggða- og atvinnumála á Suðurnesjum, stækkandi þéttbýlisstaði og mögulegs flugvallar í Hvassahrauni en lína færi þar um. Þar fyrir utan verði að líta til þess að raflínan sé fyrirhuguð í næsta nágrennis þéttbýlis í Hafnarfirði, vaxandi þéttbýlis í Vogum og um svæði sem njóti verndar vegna náttúrufars. 

Skipulagsstofnun tekur undir með Landsneti að mikilvægt sé að ákveða það heildstætt hvar eigi að nýta það takmarkaða svigrúm sem sé til að leggja jarðstrengi í flutningskerfi raforku hér á landi. Verði af því að flugvöllur verður reistur í Hvassahrauni verði að vera svigrúm til að leggja Suðurnesjalínur 1 og 2 í jörðu á og nærri flugvallarstæðinu. Þeim hluta „jarðstrengjakvótans“ verði því að mati stofnunarinnar ekki ráðstafað annarsstaðar, fyrr en þá að niðurstaða er fengin um að fallið verði frá flugvallaráformum í Hvassahrauni.

Í tilkynningu á vef Skipulagsstofnunar kemur fram að bæjarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem Suðurnesjalína 2 færi um taki ákvörðun um hvaða kostur verði fyrir valinu. Þetta eru Hafnarfjarðarbær, Sveitarfélagið Vogar, Reykjanesbær og Grindavíkurbær sem þurfa að taka þá ákvörðun sameiginlega. Í umhverfismatsferlinu hafi komið fram að bæjarstjórnum Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Voga hugnist jarðstrengsvalkostur best.

Haft er eftir Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar-  og tæknisviðs hjá Landsneti, í tilkynningu, að í verkefni eins og þessu þurfi alltaf að taka tillit til margra ólíkra þátta, svo sem kostnaðar og öryggis, til viðbótar við umhverfisþáttinn. „Það hafa líka komið upp ný sjónarmið í kjölfarið á nýlegum jarðhræringum á svæðinu sem þarf að skoða sérstaklega. Framundan er samtal við leyfisveitendur um næstu skref og höfum við væntingar til þess að það samtal leiði til góðrar niðurstöðu.“

 

Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að leyfi frá Orkustofnun fyrir framkvæmdinni liggi fyrir með samþykkt Kerfisáætlunar Landsnets, byggt á ákvæðum raforkulaga. Það leyfi taki til valkosts sem er sambærilegur við þann sem lagður sé fram í matsskýrslu og að sá kostur sé í samræmi við stefnu stjórnvalda um loftlínur í meginflutningskerfinu.