Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tekjur hönnuða og arkitekta dragast saman um 50-100%

Mynd: rúv / rúv

Tekjur hönnuða og arkitekta dragast saman um 50-100%

24.04.2020 - 14:44

Höfundar

Hönnunarmiðstöð Íslands kannaði nýlega tekjumissi arkitekta og hönnuða og skort á verkefnum eftir að COVID-19-faraldurinn blossaði upp hér á landi. Niðurstöðurnar voru sláandi og sýna að flest fyrirtæki og einyrkjar hafa misst mjög stóran hluta af tekjum sínum. Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands vill að stjórnvöld komi meira til móts við starfsfólk í þessum greinum.

Svör við könnuninni bárust frá arkitektastofum, auglýsingastofum og fatahönnunarfyrirtækjum. Þau sýna að helmingur hönnuða og arkitekta hefur misst allt frá helmingi til allra tekna sinna. Þá hafa tekjur dregist saman um 25-70% hjá sjötíu prósentum fyrirtækja. Verkefnum einstaklinga og fyrirtækja hefur fækkað töluvert. Um 70% allra verkefna hefur verið frestað, hætt við þau eða umfang þeirra minnkað verulega. Halla segir að staðan eigi eftir að versna verulega á næstu vikum. „Í okkar greinum er það þannig að áhrifin koma seinna fram en í til dæmis listgreinum eins og tónlist þar sem hlutir gerast strax.“

Samkvæmt könnuninni nýta fyrirtæki í arkitektúr og hönnun úrræði stjórnvalda, einkum hlutabótaleiðina. Um 40% fyrirtækja nýta hana nú þegar og önnur 25% eru að leita leiða til þess. Á það fyrst og fremst við um lítil og meðalstór fyrirtæki. Þeim gæti þó hafa fjölgað síðan könnunin var gerð. Vandinn er stærri hjá einyrkjum og sjálfstætt starfandi og segir Halla að þeir eigi erfitt með að fá úrlausn sinna mála innan kerfisins og hjá Vinnumálastofnun. Hún segir að það megi taka önnur norræn ríki til fyrirmyndar. Þar sé horft er lengra aftur í tímann til að ákvarða tekjur. „Þetta er að hluta til launafólk og að hluta verktakar og er með ofsalega misjafnar tekjur. Á Norðurlöndum og víðar hefur verið gefið mun meira svigrúm og horft aftur til lengri tíma í tekjum. Ekki bara þrjá mánuði eða sex mánuði aftur sem getur verið mjög óhagstætt fyrir þessa hópa af því að síðustu sex mánuðir hafa ekki verið góðir.“

Halla vonast til þess að hugsunarháttur fólks breytist og bendir á að oft felist tækifæri í ástandi eins og nú er. „Í kreppuástandi felast gríðarleg tækifæri til að breyta um stefnur og áherslur. Horfa aðeins betur á lífsgæði, endingu og að vandað sé til verka. Ekki alltaf horfa á hraða og magn.“ Nú skipti miklu máli hvernig fé sé ráðstafað. „Stórar verklegar framkvæmdir, það þykir alltaf sjálfsagt að setja stóru peningana þangað, þar heyrum við alltaf um milljarðana. Auðvitað þurfum við að gera stórar framkvæmdir líka en við megum ekki gleyma gildi minni framkvæmda núna og alls konar fjölbreyttra framkvæmda.“ Halla vill jafnramt virkja mannafla í hönnun og arkitektúr til að undirbúa aðgerðir, til dæmis í ferðaþjónustu þar sem uppgangurinn var hraður. Nú sé tækifæri til að huga betur að næstu skrefum. Hún nefnir sem dæmi endurhönnun vegvísa og leiðbeiningarkerfis, rafhleðslulausnir í þéttbýlum hverfum, bókunarkerfi fyrir heilsugæslu, húsgögn fyrir spítala og ýmislegt fleira. 

Rætt var við Höllu í Morgunþætti Rásar 1 og 2.