Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skordýrum fækkað um fjórðung frá 1990

24.04.2020 - 06:25
Xylophagus ater MHNT Fronton
 Mynd: Wiki Commons
Skordýrum hefur fækkað um nærri fjórðung síðustu þrjá áratugi, samkvæmt úttekt vísindamanna á nærri 1.700 svæðum víða í heiminum. Mikil fækkun í Evrópu veldur vísindamönnum hugarangri.

Þó fækkunin sé mikil yfir höfuð fjölgaði nokkrum skordýrum á tímabilinu. Sérstaklega ferskvatnsskordýrum, sem fjölgaði um 11 prósent á hverjum áratug sem rannsóknin nær yfir. Því ber að þakka hreinsunarstörfum í menguðum ám og vötnum. Ferskvatnsskordýr eru þó ekki nema um eitt af hverjum tíu skordýrum, og gagnast til að mynda ekki við að frjóvga plöntur.

Rannsóknin hófst árið 1990 og byggir á 166 langtímarannsóknum á svæðum víðs vegar um heiminn. Vísindamenn hafa þó áhyggjur af því hversu lítið er fylgst með þróun í Suður-Ameríku, sunnanverðri Asíu og Afríku, og því fá, eða engin, gögn að hafa þaðan. Miðað við stöðuna annars staðar grunar vísindamenn að útvíkkun borga og landbúnaður valdi einnig fækkun í skordýrastofnum þar. 

Mikil fækkun í Evrópu

Þó útlitið sé dökkt er það ekki alveg jafn svart og í rannsókn sem kom út í febrúar í fyrra. Hún var byggð á færri rannsóknum, en þar var talið að skordýrum hafi fækkað um helming síðustu hálfa öldina. Samkvæmt nýju rannsókninni, sem birtisti í vísindaritinu Science, virðist sem fækkunin verði sífellt meiri í Evrópu. Guardian hefur eftir Roel van Klink, vísindamanns við rannsóknarmiðostöð líffræðilegs fjölbreytileika í Leipzig í Þýskalandi, að ástandið í Evrópu valdi vísindamönnum óhug. Fækkunin í Norður-Ameríku helst nokkurn vegin stöðug, en annars staðar er erfitt að gera sér grein fyrir stöðunni vegna lítilla upplýsinga. 

Meðal ástæðna fyrir fækkun skordýra eru skordýraeitur, ljósmengun og að heimkynni þeirra eru lögð í rúst. Áhrif loftslagsbreytinga eru óljós, en einhverjar vísbendingar eru um áhrif þeirra á ákveðnum svæðum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir