Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur göngudeildarstarfsemi á ný

24.04.2020 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fyrirtæki og stofnanir aðlaga starfsemi sýna að breyttum samkomureglum eftir 4. maí. Sjúkrahúsið á Akureyri sameinar COVID-19 göngudeild og legudeild. Starfsemi göngudeildar fer aftur í gang en deildir verða áfram lokaðar fyrir gestum.

Takmörkuð starfsemi göngudeildar hefst eftir 4. maí og þeir sjúklingar sem hafa beðið lengi verða í forgangi. Skurðaðgerðir og valaðgerðir verða framkvæmdar á ný en einnig með takmörkunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsemi rannsóknadeilda verður færð í fyrra horf í áföngum. 

Áfram verður gætt að smitvörnum í allri meðferð sjúklinga og samskiptum starfsfólks. COVID-19 göngudeild og legudeild verða sameinaðar en þar verður áfram sinnt móttöku og innlögnum fólks með COVID-19 og ef grunur leikur á að það sé smitað. 

Legudeildir sjúkrahússins verða áfram lokaðar gestum og heimsóknir verða aðeins leyfðar í sérstökum tilvikum. Sjúklingar eru áfram beðnir að koma án fylgdarmanns og viðhafa tveggja metra regluna.