Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Icelandair boðar til starfsmannafundar

24.04.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Icelandair hefur boðað til starfsmannafundar klukkan hálf þrjú í dag. Forstjóri félagsins hefur sagt að grípa verði til sársaukafullra aðgerða. Þeir flugmenn með fréttastofa hefur rætt við í dag óttast stórfelldar uppsagnir. Formaður Flugfreyjufélags Íslands segir að margir félagsmenn séu áhyggjufullir og bíði þess að það dragi til tíðinda.

Þá hefur verið rætt við Flugfreyjufélagið um yfirvofandi uppsagnir og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur verið boðað á fund í dag. Samkvæmt lögum um hópuppsagnir verður fyrst að tilkynna um slíkt til stéttarfélags. Tvö af stærstu flugfélögum Norðurlanda, SAS og Norwegian, sögðu upp um níutíu prósentum starfsmanna sinna í lok mars. 

 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í fréttum RÚV í gær að félagið þurfi að grípa til sársaukafullra aðgerða um næstu mánaðamót til að bregðast við tekjuhruni vegna kórónuveirufaraldursins. Niðurskurðinn sé sá umfangsmesti sem félagið hafi þurft að grípa til. Félagið fer núna aðeins um fimm prósent ferða á flugáætlun. 

Hlutabréf í Icelandair lækkuðu skarpt í Kauphöllinni í morgun. Á hádegi nam lækkunin um sjö prósentustigum.

Þetta er annað sinn á stuttum tíma sem Icelandair boðar uppsagnir vegna faraldursins. Tvö hundruð og fjörutíu manns var sagt upp í síðasta mánuði og starfshlutfall níutíu og tveggja prósenta starfsmanna var skert tímabundið.