Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Icelandair á fleygiferð í Kauphöllinni í morgun

24.04.2020 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: Aero Icarus - Flickr
Hlutabréf í Icelandair hafa verið á mikilli ferð frá opnun markaða í morgun. Um klukkan ellefu höfðu bréfin lækkað um rúmlega tólf prósentustig í yfir 100 milljóna króna viðskiptum, en um klukkan hálf tólf nam lækkunin rúmum sex prósentustigum.

Í tilkynningu Icelandair sem send var eftir lokun markaða á miðvikudag kom fram að grípa þyrfti til yfirgripsmikilla aðgerða sem feli í sér uppsagnir og breytingar á skipulagi félagsins. Á sama tíma verði lögð áhersla á að halda uppi grunnstarfsemi á öllum sviðum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að niðurskurðurinn sé sá umfangsmesti sem félagið hafi þurft að ráðast í. Hann vonast til að geta ráðið sem flesta að nýju þegar markaðurinn tekur við sér, en gerir þó ekki ráð fyrir miklu áætlunarflugi í sumar.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, sem er stærsti hluthafi Icelandair Group, hafi selt ellefu milljónir hluta í félaginu sem jafngildir um 0,2 prósentum. Jafnvirði hlutarins hafi verið um 32 milljónir króna. Eftirstandandi hlutur sjóðsins, 13,5%, er metinn á yfir tvo milljarða.

Tvöhundruð og fjörutíu manns var sagt upp í síðasta mánuði og starfshlutfall níutíu og tveggja prósenta starfsmanna var skert tímabundið.