Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grænlendingar fá fjárstyrk frá Bandaríkjunum

24.04.2020 - 00:54
Mynd með færslu
 Mynd: Chrissy - Wikimedia Commons
Bandaríkjastjórn kynnti í gær fjárstyrk til Grænlands sem nemur 12,1 milljón bandaríkjadala, jafnvirði um 1,8 milljarðs króna. Að sögn bandaríska utanríkisráðuneytisins á styrkurinn að nýtast við þróun efnahagsmála, sér í lagi hvað varðar náttúruauðlindir og menntun. 

Viðbrögðin við styrkveitingunni voru misjöfn. Kim Kielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, fagnar honum og segir hann til marks um uppbyggilegt samband Grænlands og Bandaríkjanna. Danskir embættismenn eru ekki jafn hrifnir. BBC hefur eftir Karsten Honge, þingmanni SF og nefndarmanni í utanríkismálanefnd danska þingsins, að Bandaríkjamenn séu komnir yfir strikið. Það sé algjörlega ótækt að bandaþjóð reyni að valda sundrung á meðal Grænlendinga á Dana. 

Danski utanríkisráðherrann Jeppe Kofod er hins vegar sáttur. Frá stjórnvöldum séð sé frábært að Bandaríkin taki þátt í uppbyggingu Grænlands, hefur danska ríkisútvarpið eftir honum. 

Ekki til að liðka fyrir kaupum

Danir eru að líkindum varir um sig varðandi Grænland eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir áhuga á að kaupa Grænland af Dönum í ágúst í fyrra. Danir sögðu hugmyndina algjörlega út í hött. Bandaríkjamenn ætla þó að opna ræðismannsskrifsstofu á Grænlandi síðar á þessu ári. Það verður í fyrsta sinn síðan 1953 sem Bandaríkin verða með fasta skrifstofu ræðismanns í landinu. Þeir eru einnig með mikilvæga herstöð í Thule, þar sem er meðal annars að finna eldflaugavarúðarkerfi og geimeftirlitsstöð Bandaríkjahers. 
Grænland gegnir einnig lykilhlutverki vegna nýrra siglingaleiða sem opnast við bráðnun íss á norðurslóðum. Bandaríkin vilja líta því hýru auga til eyjunnar í norðri í valdabaráttu sinni við Rússa og Kínverja um auðlindir Norðurskautsins. 

BBC vísar til embættismanns í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem segir Bandaríkin hafa vaxandi áhyggjur af hernaðarbrölti Rússa á norðurslóðum. Hann segir fjárstyrkinn til Grænlands ekki til þess gerðan að auðvelda kaup á landinu síðar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV