Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fljúga daglega með lækningavörur frá Kína

24.04.2020 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair Group hefur gert samning við flutningafyrirtækið DB Schenker um minnst 45 fraktflug á milli Shanghæ í Kína og Munchen í Þýskalandi með lækninga- og hjúkrunarvörur. Þá verður jafnframt flogið frá Shanghæ til Chicago í Bandaríkjunum með viðkomu á Íslandi. Flogið verður daglega til Kína frá og með morgundeginum.

Þremur Boeing 767 breiðþotum Icelandair verður breytt tímabundið vegna verkefnisins. Hver áhöfn telur tólf manns en á annað hundrað starfsmanna Icelandair Group koma að verkefninu. 

Að lágmarki verður farið í 45 ferðir en samkomulag er um að halda uppi daglegu flugi til Kína og bæta við ferðum á meðan ástandið varir. Þá er félagið að ganga frá samningi um leigu á fjórðu Boeing 767 vélinni til annarra aðila sem áforma einnig fraktflug milli Kína og Evrópu með lækninga- og hjúkrunarvörur.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningu að ánægjulegt hafi verið að ná þessum samningi á krefjandi tímum. „Þetta eru mikilvægar tekjur fyrir félagið af flugvélum sem annars hefðu setið á jörðinni án verkefna í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja í dag. Þá skapar þetta jafnframt verkefni fyrir fólkið okkar, en undirbúningur, skipulag og framkvæmd fer öll fram hér á landi, ásamt fluginu sjálfu, með okkar frábæra starfsfólki,“ segir hann.

Icelandair hefur boðað til starfsmannafundar klukkan hálf þrjú í dag. Forstjóri félagsins hefur sagt að grípa verði til sársaukafullra aðgerða. Þeir flugmenn með fréttastofa hefur rætt við í dag óttast stórfelldar uppsagnir.