Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögur hundruð í skimun á Patreksfirði

24.04.2020 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Sigurðardóttir
Rúmlega 400 sýni hafa verið tekin á Patreksfirði og færri komust að en vildu. Heildarniðurstöður eru væntanlegar eftir helgi. Slakað verður á hertum aðgerðum vegna farsóttarinnar á norðanverðum Vestfjörðum á nokkrum stöðum á mánudaginn.

Skimun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fyrir COVID-19 á Patreksfirði, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, fór fram í dag og í gær. Þátttakan var mjög góð, rúmlega 400 sýni voru tekin á þessum tveimur dögum og færri komust að en vildu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Sýnataka fór fram í félagsheimilinu og var þátttakendum vísað um húsið í samræmi við sóttvarnarreglur. Hringt er í þá sem reynast smitaðir, aðrir geta séð niðurstöður inn á vefnum Heilsuvera.is. Heildarniðurstöður skimunarinnar eru væntanlegar eftir helgi. 

Níutíu og fimm eru smitaðir á Vestfjörðum, 85 eru í sóttkví. Engin ný smit greindust á landinu í dag. Á mánudag verður slakað á hertum aðgerðum í Súðavík og á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Þær verða hins vegar áfram með sama móti í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði og hafa þá gilt í fjórar vikur.