Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engar hvalveiðar annað árið í röð

24.04.2020 - 07:03
Mynd með færslu
 Mynd: Hard To Port
Hvalur hf. ætlar ekki að veiða og verka hval hér á landi í sumar. Þar sem stjórnvöld í Japan niðurgreiða hvalaafurðir fyrirtækja þar er erfitt að leggja í samkeppni að sögn framkvæmdastjóra Hvals, því afurðir héðan verða þá ekki samkeppnishæfar.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir Kristjáni Loftssyni, framkvæmdastjóra Hvals hf., að einnig eru gerðar meiri kröfur um prufur og efnagreiningar á hvalaafurðum héðan sem ekki eru gerðar í Japan. 

Kristján segir einnig að þó hægt væri að komast inn á markaðinn í Japan væri nánast vonlaust að skera hval hér á landi vegna fjarlægðartakmarkana í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Þar er unnið í miklu návígi og margir þyrftu í sóttkví ef kæmi upp smit hjá starfsmönnum.

Þrátt fyrir að engar hvalveiðar tvö sumur í röð segir Kristján að unnið sé að úrvinnslu á rannsóknum á hvalaafurðum þar sem athugað er hvort hægt er að nota járnríkar afurðir í fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi. Einnig er rannsakað hvort hægt sé að framleiða gelatín úr beinum og hvalspiki sem hugsað er til lækninga og matvælavinnslu.

Heimilt er að veiða yfir 200 langreyðar og yfir 200 hrefnur hér við land á ári. Árið 2018 voru hér veiddar 146 langreyðar og sex hrefnur.