Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Deilt um heilindi marðarhundsins á eyðieyjunni

Mynd: Nintendo / Nintendo

Deilt um heilindi marðarhundsins á eyðieyjunni

24.04.2020 - 09:14

Höfundar

„Þessi leikur er staðalbúnaður í heimsfaraldri. Við keyptum hann eftir alveg skelfilega helgi þegar faraldurinn brast á og ég fer ekki ofan af því að þetta hafi bjargað geðheilsu heimilismeðlima,“ segir Íris Ellenberger sagnfræðingur um tölvuleikinn Animal Crossing sem kom út í miðju samkomubanni.

Það má segja að yfirstandandi heimsfaraldur sé sannkölluð gósentíð sófakartöflunnar því sjaldan hefur verið jafnmikið framboð af afþreyingu, sjónvarpsglápi, útvarpsþáttum og hlaðvarpi og tölvuleikjum, og einmitt nú. Enda tilefnið líklega aldrei jafn ærið til að njóta þess sem hægt er að njóta, innan veggja heimilisins. Eitt af því sem hefur stytt mörgum stundir og jafnvel veitt vandfundna sálarró síðustu misseri er tölvuleikurinn Animal Crossing sem Nintendo gaf út á heppilegum tíma. Fyrsti leikurinn kom út fyrir tæpum tuttugu árum en sá nýjasti, sem ber undirtitilinn New Horizons, er hinn fimmti í röðinni. Íris Ellenberger sagnfræðingur, Karl Ólafur Hallbjörnsson heimspekingur og Júlía Hermannsdóttir tónlistarkona hafa verið að spila leikinn og ræddu reynslu sína við Davíð Kjartan Gestsson í Lestarklefanum. 

Í leiknum fá spilarar tækifæri til að flýja fábreytilegan COVID-19 veruleikann yfir á stafræna eyðieyju og skapa þar sína eigin útópísku paradís. Þetta er svokallaður lífshermir þar sem spilarar taka þátt í að mynda samfélag ásamt hópi krúttlegra dýra. Í grófum dráttum snýst hann um að safna auðlindum sem nýttar eru til að smíða verkfæri og fyrir önnur líkamleg þægindi. Hægt er að njóta sín í kyrrðinni og náttúrufegurðinni við að veiða skordýr og fiska og snurfusa eigin híbýli. Leikurinn gerist í rauntíma og sól rís og sest í samræmi við raunheima svo það þarf að líta reglulega við svo eyjaskeggjar sakni ekki almættisins eða garðurinn verði arfa að bráð.

Tækifæri til að hitta vini sína í samkomubanni

„Þessi leikur er staðalbúnaður í heimsfaraldri,“ fullyrðir Íris. „Við keyptum hann eftir alveg skelfilega helgi þegar faraldurinn brast á og ég fer ekki ofan af því að þetta hafi bjargað geðheilsu heimilismeðlima.“ Júlía, sem hefur verið aðdáandi leikjanna um árabil, tekur undir. „Leikurinn átti að koma út í fyrra og ég var búin að hlakka mikið til. Svo varð ég mjög vonsvikin að honum yrði frestað en það var í takt við boðskap leiksins. Þau ætluðu að passa að það væri ekki of mikil pressa á starfsfólki og ekki lengja vinnudaginn hjá þeim,“ segir hún. Sú ákvörðun reyndist heillavænlegri en aðstandendur hans hefði getað grunað. „Nú er þessi leikur búinn að seljast meira en Pókemon-leikurinn og hann algjörlega stendur undir væntingum.“

Júlía segir enn fremur ekki skemma fyrir að í leiknum fái hún tækifæri til að hitta vini sína sem hún getur ekki hitt í raunheimum. „Þegar allir eru þreyttir eftir zoom-fundi í vinnunni er hægt að vera lítill krúttlegur karakter að veiða þarna fisk með vini sínum.“

Marðarhundurinn veitir sanngjörn lán

En til þess að hjálpa dýrunum að fjármagna kaupin á eyjunni er marðarhundurinn Tom Nook viljugur til að veita lán hverjum sem þess óskar. Þótt einhverjum finnist kapítalískar áherslur Toms óskemmtileg viðbót í leiknum fagnar Karl tilvist hans og hjálpsemi. „Það er ekkert spurt um lánshæfismat, engir vextir, engir borgunardagar eða neitt. Þú gerir þetta á þínum eigin tíma og þetta eru sanngjörn lán. Ég er sáttur við Tom,“ segir hann.

Alls konar skuggalegt í gangi á bak við tjöldin

Íris setti hins vegar smá fyrirvara við heilindi marðarhundsins en lét það ekki stoppa sig í næpubraski sem hún er byrjuð í á eyjunni sinni. „Ég er viss um að það er reykfyllt bakherbergi þar sem vafasamir dílar fara fram. Það er alls konar skuggalegt í gangi á bak við tjöldin en ég læt það sem vind um eyru þjóta og safna næpunum.“

Rætt var um Animal Crossing í Lestarklefanum.

Tengdar fréttir

Pistlar

Sýndarveruleiki og framtíð tölvuleikja

Menningarefni

Stafræn menningarverðmæti framtíðarinnar