Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Við munum sjá frekari lækkun á eldsneytisverðinu hér“

23.04.2020 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Forstjóri Olís gerir ráð fyrir því að eldsneytisverð lækki hér á landi, samhliða lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu. Hann segir hins vegar að staðan hjá fyrirtækinu sé erfið, enda hafi eftirspurn eftir eldsneyti minnkað mikið auk þess sem fyrirtækið sitji uppi með birgðir af eldsneyti sem keypt var á hærra verði en nú býðst. Forstjóri Skeljungs segir að fyrirtækið hafi lækkað eldsneytisverð í tvígang í þessari viku.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað mikið á undanförnum vikum, samhliða miklum samdrætti í eftirspurn vegna kórónuveirufaraldursins. Olíuverð vestanhafs hefur farið undir núll sem skýrist af því að olíuframleiðendur geta ekki stöðvað olíulindir og geymslupláss er uppurið. Þeir hafa því þurft að borga hærra verð fyrir geymslu á olíunni en sem nemur verðmæti olíunnar sjálfrar.

Verð á hráolíu hækkaði þó skarpt á mörkuðum í Asíu í morgun, en er þrátt fyrir það ennþá sögulega lágt.

„Ljóst er að það er einkennileg staða uppi um þessar mundir en algjört eftirspurnarfall er á eldsneytismarkaði, bæði hér innanlands sem og erlendis eins og allar fréttir bera með sér núna,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.

„Til að skýra stöðuna eins og hún birtist okkur þá hefur verð á bensíni nú lækkað um 29,10 krónur frá áramótum og stendur nú í 213,80 á Olísstöðvum. Hlutfall ríkisins í bensíni er í dag um 59%.“

Færri lítrar

Þá segir Jón Ólafur að samhliða lækkun heimsmarkaðsverðs hafi íslenska krónan veikst um 18% gagnvart Bandaríkjadollar.

„Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu þá hefur akstur minnkað um 40 til 50% og hefur það endurspeglast í rekstri okkar þar sem við sitjum uppi með birgðir frá því í febrúar sem gerir okkur erfitt fyrir um þessar mundir. Fallið á eldsneytisverðinu gerist í raun á mjög stuttum tíma, einum og hálfum til tveimur mánuðum, en á sama tíma fellur salan mjög hratt og eftir sitja dýrar birgðir.  Ég geri ráð fyrir að þessar birgðir fari að komast út og við munum sjá frekari lækkun á eldsneytisverðinu hér.“  

Þá segir Jón Ólafur að fyrirtækið hafi gripið til margvíslegra aðgerða í sínum rekstri, breytt opnunartíma og dregið úr þjónustustigi og starfsmannafjölda. „Á móti kemur að mun færri lítrar þurfa að halda uppi föstum kostnaði félagsins og er rekstrarafkoma okkar í uppnámi eins og hjá flestum þessar mundir.“

Fréttastofa sendi erindi á fleiri olíufélög, og spurði hvort til stæði að lækka eldnseytisverð á næstunni.

„Skeljungur hefur ítrekað lækkað verð á bæði bensíni og dísel á þessu ári t.d. höfum við lækkað verð í tvígang í þessari viku,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, í skriflegu svari til fréttastofu. Ekki hafa fengist svör frá N1 og Atlantsolíu.