Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umdeild kaup á Newcastle í sviðsljósinu

epa06723321 Newcastle United fans pose before the English Premier League soccer match between Tottenham Hotspur and Newcastle United at Wembley Stadium, London, Britain, 09 May 2018.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA

Umdeild kaup á Newcastle í sviðsljósinu

23.04.2020 - 19:47
Milliríkjadeila í Miðausturlöndum og mannréttindabrot gætu haft áhrif á hugsanlega yfirtöku á enska knattspyrnuliðinu Newcastle. Til stendur að konungsfjölskyldan í Sádi Arabíu eignist 80 prósenta hlut í félaginu.

 

Katarska sjónvarpsstöðin beIN sports hefur krafist þess að enska úrvalsdeildin komi í veg fyrir yfirtökuna, þar sem Sádar beri ábyrgð á ólöglegri dreifingu enska boltans um allan heim. Sádi arabíska útsendingafyrirtækið Arabsat byrjaði að streyma efni ólöglega árið 2017, sama ár og deilur hófust milli Sáda og Katara. Þá hafa mannréttindasamtökin Amnesty International nú bent á það að kaupin séu einungis tilraun Sádi arabísku konungsfjölskyldunnar til að þvo hendur sínar af mannréttindabrotum í landinu.

 

„Við erum alveg klár á því að þeir eru að nota íþróttir til að bæta orðspor sitt alþjóðlega, til að snúa sögunni,“ segir Felix Jakens frá Amnesty International við AP.

 

„Að færa umfjöllunina frá drápum og mannréttindabrotum og yfir í íþróttir og þann ljóma sem þær geta fært. Þeir sjá það að eignast Newcastle, lið í úrvalsdeildinni sem er ein vinsælasta deild heims, sem gott fyrir orðspor sitt og leið til að mæta stanslausu flæði neikvæðra upplýsinga sem við höfum um landið.“

 

 

Enska úrvalsdeildin er nú á lokametrunum með að taka ákvörðun um hvort heimila eigi yfirtökuna en litlar líkur eru taldar á því að hún komi í veg fyrir hana, þar sem hún samþykkti sölu Sheffield United til sádiarabísks prins í fyrra.