Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það liggur við að fólk gráti í símann“

23.04.2020 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölskylduhjálp Íslands hóf í dag matarúthlutun sína fyrir apríl. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, segir að neyðin sé mikil, og að hún hafi aukist eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.

„Undanfarnar vikur, frá því að við vorum síðast með úthlutun fyrir 570 heimili, þá hefur stöðugt verið hringt í okkur. Það liggur við að fólk gráti í símann. Það á ekki mat fyrir heimilið sitt,“ segir Ásgerður Jóna. „Í dag erum við búin að bóka 200 heimili og það gengur ljómandi vel. Og þetta er yfirleitt fólk sem margt hefur verið í mikilli neyð áratugum saman. Þetta eru öryrkjar, eldri borgarar, einstæðir, einstæðir karlmenn og útlendingar sem eru búnir að missa vinnuna. Og það má eiginlega segja að þetta sé fólk sem sé að koma úr þeim hópum sem tilheyra viðkvæmasta hópnum á landinu í dag.“

Finnst ykkur að neyðin hafi aukist eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á?

„Já, guð minn góður. Við vorum með þessa stóru úthlutun í mars. Og nú erum við með aðra eins. Við gerum ráð fyrir því að fólk geti áfram sótt um í dag og á morgun. Við verðum með úthlutun á morgun og á mánudaginn. Fólk sækir um á netinu og við erum búin að áætla að þetta verði 600 heimili.“

Er það meira en venjulega?

„Nei. Við gætum verið að afgreiða 2-3.000 heimili. En við þurfum náttúrulega að hafa peninga til þess að kaupa aðföng. Það strandar allt á því. En hér eru allir viljugir til þess að afgreiða. Og við gætum alveg farið upp í 3.000 heimili og ég veit alveg að sá fjöldi er til staðar,“ segir Ásgerður Jóna.

Til að sækja um aðstoð er farið inn á vefsíðuna fjolskylduhjalp.is.