Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hertóku íslenska sendiráðið í Svíþjóð fyrir 50 árum

Mynd: Skjáskot / Bráðum kemur bylting

Hertóku íslenska sendiráðið í Svíþjóð fyrir 50 árum

23.04.2020 - 13:02

Höfundar

Fyrir fimmtíu árum síðan hertóku ellefu íslenskir námsmenn sendiráð Íslands í Stokkhólmi og hentu starfsmönnunum út. Þar mótmæltu þeir bágum kjörum og auðvaldsskipulaginu en voru svo fjarlægðir af lögreglu um tveimur klukkustundum síðar.

Þann 20. apríl 1970 réðust námsmennirnir ellefu inn í sendiráðið en sjö aðrir tóku þátt í aðgerðinni fyrir utan, sáu til að mynda um að dreifa einblöðungum með pólitískum áróðri og hóa saman fjölmiðlum. Flestir voru þeir við nám í Gautaborg og Uppsölum og mótmæltu ekki síst nýlegri gengisfellingu íslensku krónunnar sem hafði gjörbreytt kjörum þeirra til hins verra. Fjallað er um sendiráðstökuna í myndinni Bráðum verður bylting sem er á dagskrá RÚV 21:10 í kvöld.

„Þegar ég kem til Gautaborgar er Artúr Ólafsson eins konar foringi Íslendinganna í Gautaborg,“ segir Gunnar Ægisson sem nú starfar sem hagfræðingur. „Hann var farinn að taka þátt í róttæku starf og ræddi mikið pólitík. Hann sem listamaður vann að verkefnum gegn hernaði Bandaríkjanna í Víetnam, og hann var hvatamaðurinn að sendiráðstökunni.“

„Kveikiþráðurinn var stuttur og það var mikil gróska,“ segir Guðjón Aðalsteinsson verkfræðingur sem var einn af ellefemenningunum. „Menn voru tilbúnir að taka málin í sínar hendur, ekki bíða öðrum að bjarga sér. Við ráðfærðum okkur við menn í Uppsölum og þeir voru til í slaginn, þá varð það úr að drífa í þessu.“

„Okkur fannst þetta góð hugmynd að fara inn í sendiráðið, ekki bara til friðsamlegra mótmæla heldur taka það,“ segir Kristján Guðlaugsson blaðamaður og kennari. „Láta allan heiminn vita af því að íslenskir námsmenn væru ekki bara óánægðir með kjör sín, heldur væru mjög róttækir líka. Úr þessu varð að í staðinn fyrir að setjast niður á göngum og tefja þannig störf sendiráðsins var ákveðið að henda starfsfólkinu út og hertaka sendiráðið.“

Fjallað er um sendiráðstökuna í Stokkhólmi í heimildarmyndinni Bráðum verður bylting sem er á dagskrá RÚV á sumardaginn fyrsta.

Tengdar fréttir

Myndlist

Í blómagarði Eggerts Péturssonar

Kvikmyndir

Vasulka-áhrif í endurnýjun lífdaga

Kvikmyndir

Eldrauður bær í bláu landi

Menningarefni

Sumir byggja stíflur meðan aðrir sprengja þær