Geðveikt að vera á Laugardalsvellinum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Geðveikt að vera á Laugardalsvellinum

23.04.2020 - 10:33
Íþróttadeild RÚV mun næstu vikur fá fólk til að rifja upp sínar helstu minningar sem tengjast íþróttum. Í þetta skiptið ætlar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, að rifja upp sína eftirlætisminningu.

Lilja æfði sjálf hinar ýmsu íþróttir á sínum yngri árum og hefur því verið viðloðandi íþróttir alla tíð. Fimleikar voru fyrirferðarmestir hjá henni í æsku.

 

„Ég fílaði mig vel í fimleikunum, það voru miklar og strangar æfingar og oft upp í 22 tíma á viku,“ segir Lilja.

„Mér fannst þeir æðislegir á þessum tíma. Það sem er líka svo frábært við það að æfa fimleika er að það eru alls konar smásigrar í þeim. Þeir eru svo þrekmiðaðir og það er góð tilfinning að ná flottu flikkflakki eða flottri æfingu á gólfi. Ég hætti í fimleikum hins vegar þegar ég var 12 ára og fór þá að æfa frjálsar íþróttir. Þar keppti ég meðal annars í spretthlaupi með Ármanni. Svo náðum við öðru sætinu í boðhlaupi kvenna á Íslandsmótinu í okkar aldursflokki. Þetta voru mjög skemmtilegir tímar. Ég hef svo reyndar verið mjög virk í íþróttum alla mína tíð, handbolta, fótbolta, meira að segja körfubolta. Þegar ég varð eldri ákvað ég líka að fá mér fimleikaþjálfarapróf.“

Þegar kemur að hennar uppáhaldsíþróttaminningu er Laugardalsvöllurinn henni hugleikinn. Lilja er Framari og hennar uppáhaldsíþróttaminning tengist síðasta gullaldarskeiði karlaliðs félagsins í fótbolta. Fram varð Íslandsmeistari í fótbolta sumarið 1988 eftir að hafa misst titilinn í hendur Vals árið áður. Full stúka á Laugardalsvelli sá Fram tryggja sér titilinn með sigri á KA í 15. umferð mótsins.

 

„Það sem stendur virkilega upp úr er augnablikið þegar Fram varð aftur Íslandsmeistari árið 1988. Það var alveg geðveikt að vera á Laugardalsvellinum og fagna með öllum!
Svo verð ég nú að minnast á það að börnin mín spila með Víking, og það var æðislegt að sjá Víking verða bikarmeistarar í knattspyrnu síðasta sumar! Einstakt.“