Forfeðurnir söfnuðust saman í Ingvari á sviðinu

Mynd: Eiríkur Hafdal / Hafdal Studio

Forfeðurnir söfnuðust saman í Ingvari á sviðinu

23.04.2020 - 09:00

Höfundar

Sjálfstætt fólk, leikgerðin af einni vinsælustu bók Halldórs Laxness, var flutt í tveimur hlutum á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu árið 1999. Báðir hlutarnir verða sýndir í leikhúsveislu RÚV og Þjóðleikhússins sumardaginn fyrsta.

Í fyrri hlutanum lék Ingvar E. Sigurðsson Bjart í Sumarhúsum og Margrét Vilhjálmsdóttir Rósu Þórðardóttur. „Röddin á mér fór í taugarnar á mér en mér fannst mjög gaman að sjá þetta,“ segir Ingvar um hvernig er að skoða upptöku af sýningunni nú, tveimur áratugum síðar. „Það rifjaðist upp hvað sýningin lifir í manni,“ segir Ingvar og Margrét tekur undir. „Það var ótrúlegt að finna fyrir því líkamlega, hvernig hver setning á sér stað í hjartanu.“ Þau segja að Kjartan Ragnarsson, sem leikstýrði, hafi veitt leikhópnum mikið frelsi til að gera tillögur að útfærslum, til dæmis fyrir hópsenurnar. „Það var verið að sameina svo margar listgreinar í einu,“ segir Margrét, „dans og söng, leik og hljóðfæraslátt.“

Ingvar minnist þess sérstaklega hvað leikmyndin hallaði mikið. „Þetta var einkennilega líkt því að vera í íslensku landslagi. Hvernig maður náði að stilla líkamann af, alltaf eins og maður væri að halla sér upp að þúfu.“ Margrét man sérstaklega eftir litunum á sviðinu og hvað þeir gerðu mikið fyrir leikinn. „Ég man hvað það var mikil nautn að fara á sviðið í fyrsta sinn. Mesta nautnin var samt að komast á svið og hitta þig. Það var ótrúlegt ævintýri fyrir mig eftir alla bakvinnuna, að kljást við textann og sitúasjónina.“ Þrátt fyrir að meira en 20 ár séu síðan man Ingvar eftir hvað það var sérstakur kraftur í sýningunni. „Það gerðist eitthvað, næstum eins og forfeður manns hafi safnast saman í mann á sviðinu. Mér þykir vænt um þetta tímabil og samband okkar sem leikara, og karakteranna, sem er flókið.“

Fyrri hluti Sjálfstæðs fólks verður sýndur á RÚV 2 klukkan 16 sumardaginn fyrsta og sá síðari klukkan 19.30 sama dag.

Tengdar fréttir

Leiklist

Gróðurhús hæfileika og heimsbókmennta í 70 ár

Leiklist

Ógleymanleg reynsla að leika á móti Gunnari Eyjólfs

Leiklist

„Má segja að við höfum kvatt Stefán með sýningunni“

Sjónvarp

Veikur maður fær leikhús að láni og segir sögu sína