Einn stærsti menningarviðburður 20. aldar

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Einn stærsti menningarviðburður 20. aldar

23.04.2020 - 08:29

Höfundar

„Þetta hús á að vera þjóðarinnar hús um leið og það er þjóðlegt og alþjóðlegt leikhús, skemmtistaður og menningarstofnun. Hér á að vera vígi til varðveislu og eflingar þjóðlegra verðmæta, lífs og lista. Hér á að vera turn til útsýnis um erlenda leiklist og hér á að vera brú milli fortíðar og framtíðar í bókmenntum og máli.“ Þetta sagði Vilhjálmur Gíslason, fyrsti formaður Þjóðleikhúsráðs, í ræðu á sumardaginn fyrsta fyrir 70 árum þegar Þjóðleikhúsið var vígt.

Þjóðleikhúsið var vígt 20. apríl 1950 sem jafnframt var sumardagurinn fyrsti það ár. Gestir í sínu fínasta pússi streymdu til opnunarinnar sem líka var útvarpað. Þá hófst þriggja daga opnunarhátíð en fyrsta verkið sem sýnt var í leikhúsinu var Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson sem oft er kallaður faðir Þjóðleikhússins. 

Aðdragandi Þjóðleikhúss Íslendinga var langur og teygir sig aftur á 19. öldina en hugmyndirnar um það kviknuðu strax árið 1873 í samskiptum Indriða Einarssonar leiksskálds og Sigurðar Guðmundssonar málara en Indriði gerði síðar grein fyrir hugmyndunum á prenti í upphafi nýrrar aldar, í grein í Skírni árið 1907. Þar sagði meðal annars:

Líklega munu ýmsum ofbjóða slíkar kröfur, og slíkar tillögur, og alt þetta á að setja niður í Reykjavík. Þeim mönnum verður að benda á það, að í Reykjavík eru skilyrðin langhelzt fyrir hendi, að bærinn er orðinn nú höfuðstaður landsins, bæði að mannfjölda og öðru, að bærinn er aðsetur stjórnarinnar, og aðsetur Alþingis, sem framvegis verður haldið á vetrum, á þeim tíma sem aðallega er leikið. 

Magnús Þór Þorbergsson leiklistarfræðingur bendir á að vígsla Þjóðleikhússins hafi verið einn mesti menningarviðburður Íslandssögunnar og að bygging hússins hafi verið nátengd fullveldi þjóðarinnar.

„Vígsluathöfnin var táknræn fyrir þann hámenningarlega stað sem að þjóðin taldi að hún væri komin á. Prúðbúnir gestir streymdu að, sumir þeirra erlendir. Það eru til kvikmyndaupptökur sem sýna konurnar koma pelsklæddar til vígslunnar og mennina í kjólfötum. Þetta átti allt að sýna að við værum komin á þann stað að geta opnað svona hús og haldið svona þriggja daga hátíð, með þremur leikritum sem kostaði auðvitað mikla vinnu fyrir leikhúsið.“

Guðjón komst aldrei í húsið

Þó að hugmynd að Þjóðleikhúsi í Reykjavík hefði komið upp á áttunda áratug 19. aldar var það ekki fyrr en í upphafi þriðja áratugar þeirrar tuttugustu að ákveðið var á Alþingi að skemmtanaskattur skyldi renna til byggingar slíks húss. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, var settur í að teikna húsið og grunnur loks tekinn árið 1929.

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan
Reisugilli Þjóðleikhúss, en byggingarsagan Þjóðleikhússins var löng og ströng.

„Það er síðan grátlegt að hugsa til þess,“ segir Magnús Þór, „að Guðjón Samúelsson sem að teiknaði húsið og vann við það síðustu dagana fyrir opnun, nánast hangandi utan á því til að sjá til þess að það næðist að klára allt, veiktist svo heiftarlega að hann komst aldrei inn í húsið eftir opnun. Hann hlustaði á vígsluna í útvarpinu og lést nokkrum dögum eftir opnun hússins.“

Hernumið hús

Eftir að breskt herlið steig á land í Reykjavík 10. maí 1940 var þetta stóra, galtóma hús hertekið. „Breska herliðið tók yfir húsið og notaði það sem birgðageymslu, svefnskála og ég veit ekki hvað annað, enda höfðu framkvæmdir við það stöðvast í kjölfar kreppunnar. Þetta var efni til mikillar hneykslunar. Menn álitu að þarna væri verið að taka þessa von um að Ísland gæti talist menningarlega fullvalda þjóð og brjóta hana algjörlega niður. Strax í kjölfarið var Félag íslenskra leikara stofnað meðal annars til að klára húsið og Lárus Pálsson leikari fór jafnvel til Bretlands til að biðja Bretana að yfirgefa húsið, en þeir neituðu því. Herliðið fór samt úr húsinu fyrir rest og það má tengja beint við lýðveldisstofnunina 1944. Framkvæmdir fóru aftur af stað og bygging hússins varð aftur partur af sjálfstæðishugsjóninni,“ segir Magnús Þór Þorbergsson. 

Þennan stað, þettta svið helgar þjóðin listamönnum sínum. Hún býður þá velkomna í þessi salarkynni og væntir þess að íslensk leiklist og andagift muni jafnframt koma hér fram í sinni glæsilegustu mynd.

– Björn Ólafsson, menntamálaráðherra við vígsluna.

Í innslaginu úr Víðsjá á Rás 1 hér að ofan er leitað fanga í safni Ríkisútvarpsins og fjallað ítarlega um vígsluna og byggingarsögu Þjóðleikhússins. Meðal annars er farið í heimsókn í húsið á tíu ára afmæli þess árið 1960 í fylgd Sveins Einarssonar, sem síðar átti eftir að gegna starfi Þjóðleikhússstjóra. 

Tengdar fréttir

Leiklist

Rauk út í skelfingu af fyrstu leiksýningunni

Innlent

Þjóðleikhússafmæli frestað fram á haust

Leiklist

Þjóðarskútunni siglt í strand á sviði Þjóðleikhússins

Tónlist

Listamenn og stofnanir bregðast við samkomubanni