Dularfullur fugladauði í Þýskalandi

23.04.2020 - 16:05
epa08114600 A blue tit (Parus caeruleus) sits on a piece of a apple at a winter food place for birds in Rheinstetten near Karlsruhe, Germany, 09 January 2020.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: epa
Þúsundir spörfugla hafa fundist dauðar í Þýskalandi á síðustu tveimur vikum. Talið er að baktería sem ræðst á lungu fuglanna sé sökudólgurinn.

Flestir hinna dauðu fugla eru blámeisur sem eru algengir spörfuglar á meginlandi Evrópu. Dauðu fuglarnir hafa aðallega fundist í vesturhluta Þýskalands.

Sjúkdómseinkenni veikra fugla sem hafa fundist eru öndunarörðugleikar og lystarleysi. Þá reyna þeir með engum hætti að fljúga á brott þegar fólk nálgast þá, sem er andstætt eðli þeirra. Náttúruverndarsamtök í Þýskalandi ráðleggja fólki að gefa blámeisunum ekki að éta eða drekka, þar sem það kunni að stuðla að frekari smiti á milli fuglanna.

Fyrstu niðurstöður krufninga á dauðum fuglum benda til bakteríusýkingar sem hefur verið þekkt í um 30 ár og ræðst á lungu fuglanna. Þessarar sýkingar varð fyrst vart í Þýskalandi fyrir tveimur árum. Engar vísbendingar eru um að þessi baktería hafi áhrif á önnur dýr en fugla.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi