Talið er að stóran hluta megi rekja til kórónuveirufaraldursins sem herjar á heimsbyggðina. Víða er fólk skikkað til að vera heima og því tilvalið að gerast áskrifandi að streymisveitum. Í bréfi stjórnenda Netflix til fjárfesta segir að þeir geri sér grein fyrir því að vöxturinn sé að líkindum tímabundinn. Þjónusta fyrirtækisins sé þýðingarmeiri nú þegar fólk verji meiri tíma heima hjá sér. Búist er við því að það dragi úr fjölguninni með rénun faraldursins.
AFP fréttastofan hefur eftir netmarkaðsrýninum Eric Haggstrom að meðal þess sem eykur hagnað Netflix um þessar mundir sé hlé á framleiðslu nýs efnis. Þannig losnar um lausafé hjá fyrirtækinu til skamms tíma. Enginn viti hins vegar hversu lengi það varir þar sem útgöngu- og ferðabann getur verið mislengi eftir ríkjum. Netflix á hins vegar safn þátta og mynda sem fyrirtækið á eftir að birta á veitunni. Þannig er Netflix ef til vill ekki jafn háð nýju efni og keppinautar þeirra á streymisveitumarkaðnum.