Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbúningur fyrir opnun 5 stjörnu hótels hafinn

22.04.2020 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Undirbúningur fyrir opnun hótel Reykjavík Edition er hafinn. Búið er að ráða í lykilstöður og frekari ráðningar hefjast fljótlega, segir fulltrúi eigenda hótelsins. Verkið sé nokkurn vegin á áætlun þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn en verklok óljós.

Framkvæmdir í fullum gangi þrátt fyrir heimsfaraldur

Heimsfaraldur COVID-19 hefur ekki haft áhrif á fjárhagslega stöðu eða vinnu við hótel Reykjavík Edition sem nú rís við Hörpu. Hótelið er fyrsta 5 stjörnu hótelið hér á landi og verður rekið af Marriott hótelkeðjunni.  

Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fasteigna fylgist með framkvæmdum fyrir hönd eigenda hótelsins sem er gríðarlega stórt. Það er 17 þúsund fermetrar og  253 hótelherbergi. Áætlað er að hótelið kosti um 20 milljarða króna.

Stefnt var að því að ljúka við byggingu hótelsins á þessu ári. Sveinn segir að ekki sé hægt að segja núna hvort sú áætlun standist. Verkið sé komið um það bil 70 prósent áleiðis. Húsið sé komið upp og verið sé að klára gler, klæðningar og einangrun. Ennfremur sé vinna inni í húsinu í fullum gangi. Um það bil 150 manns vinna í húsinu núna.  „Þetta er það stórt hús að við höfum náð að gera viðeigandi ráðstafanir vegna COVID-19 með aðskilnaði á hæðum og mötuneyti. Farið er eftir leiðbeiningum landlæknis í þeim efnum. Það hefur bara gengið nokkuð vel - sjö níu þrettán - segi ég nú bara, engin tilfelli komið upp hjá okkur.“

Verður opnað eins fljótt og hægt er 

Örlítið fækkaði þó í hópi starfsmanna því nokkrir erlendir þurftu að fara heim til sín og aðrir kusu að fara, segir Sveinn.  Við það hægðist aðeins á vinnunni en tekist hafi að vinna með það. Framleiðsla á innréttingum og lausabúnaði frá Ítalíu og fleiri stöðum hefur verið stöðvuð sem einnig setur strik í reikninginn og því erfiðarar að áætla nákvæmlega hvenær verklok verða. „En við erum bara að vinna eftir því að opna eins fljótt og við getum. Það er enginn bilbugur í mönnum að klára þetta verkefni og koma inn í ferðaflóruna í Reykjavík og á Íslandi.“

Búið að ráða hótelstjóra

Sveinn segir að undirbúningur fyrir opnun sé hafinn.  „Það er búið að ráða í æðstu stöðurnar í hótelinu hérna heima og þeir starfsmenn þegar byrjaðir að vinna. Frekari ráðningar munu hefjast fljótlega.“

Búið er að ráða hótelstjóra og fjármálastjóra en nöfn þeirra hafa ekki verið gefin út.

Ekki er mikið um ferðamenn á landinu núna og óljóst hvenær þeir fá að koma til landsins. „Það er kannski ótrúlegt að segja það en okkar hópur er alveg jafn jákvæður á þennan markað og hann var þegar hann tekur ákvörðun að fara í það. Og eins og þeir tala jafnvel jákvæðari.“

Telja framtíð ferðaþjónustu á Íslandi góða

Eigendur hótelsins hafi þá sýn að þegar faraldrinum linni þá hafi myndast ákveðin útþrá í heiminum. Fegurð Íslands, sterk ímynd landsins og öryggi sem fólk finni fyrir hér eigi þátt í því að framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er jákvæð. „Við erum að horfa til langs tíma hvað varðar eftirspurn eftir svona 5 stjörnu hóteli. Menn eru jákvæðir gagnvart því.“

Eru ekki líkur á því að ástandið dragi úr möguleikum íslenskrar ferðaþjónustu?

„Ekki til langs tíma. En þetta fer ekki strax í gang [..] en þegar þetta opnast þá trúa menn því að þetta gerist hraðar en fólk í svarsýniskastinu er að horfa til. Það er okkar sýn.“

Faraldurinn breytir ekki kostnaðartölum

Sveinn segir að faraldurinn hafi ekki áhrif á fjárhagslega stöðu verkefnisins.„COVID-19 hefur ekki breytt neinum kostnaðartölum. Það er búið að semja við alla verktaka og þetta er í ágætis málum.“

„Við erum bara í eigin framkvæmdum. Við erum með þetta ofboðslega sterka bakland. Hótelið er ekki í rekstri á þessum tíma heldur eða að opna á þessum tíma þegar menn eru að sjá til þess að þessum faraldri ljúki. Þá horfa menn bara bjartsýnir fram á veginn.“

Einn aðalfjárfestirinn í verkefninu er bandaríska fasteignaþróunarfélagið Carpenter & Company en einnig hafa íslenskir lífeyrissjóðir og nokkrir einstaklingar fjárfest í því. Sveinn segir að Marriott sé stærsta hótelfyrirtæki í heimi. „Þetta er gríðarlega öflugt batterí sem er á bak við þetta og það er enginn bilbugur á mönnum.“