Um fjórðungur Hornfirðinga á hlutabótum eða án atvinnu

22.04.2020 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason - Hornafjörður
Hornfirðingar þurfa ekki bara að kljást við hrun í ferðaþjónustu heldur líka humar- og loðnubrest. Ungt námsfólk leitar á náðir sveitarfélagsins um sumarvinnu á sama tíma og næstum fjórðungur íbúa fær hlutabætur eða hefur misst vinnuna.

Við aðkomuna að Höfn í Hornafirði blasa við þrír stórir jeppar og tveir farnir af númerum. Þeir ættu núna að vera að flytja ferðamenn í íshella. „Nú er ekkert nema að þrífa og smyrja og viðhalda bílunum sem þarf að gera. Maður er á 25% hlutfalli þannig að við vinnum mánudaga og aðrir dagar fara í að reyna að sjá út hvernig við höldum fyrirtækinu gangandi ef þetta dregst mjög á langinn,“ segir Karl Sigurður Guðmundsson, eigandi South-East ehf.

Í Hornafirði er vanalega krökkt af ferðamönnum en nú eru gisti- og veitingastaðir tómir. Þar eru nú 90 manns alveg atvinnulausir. „Og á fimmta hundrað manns eru í hlutabótaleiðinni og miðað við það að íbúar í sveitarfélaginu eru um 2.300 manns þá er þetta mjög stórt hlutfall af heildarfjölda íbúa. Síðan er líka aflabrestur í humri. Sem hefur áhrif á sumarstörf hjá ungu fólki,“ segir Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi á Hornafirði.

Sveitarfélagið sér fram á tekjutap en stendur ágætlega og ætlar að standa við áform um tæplega 800 milljóna króna framkvæmdir á árinu. Það kallar á iðnaðarmenn en unga skólafólkið bankar líka á dyrnar. „Við höfum starfrækt vinnuskóla undanfarin ár þar sem hefur verið mjög lítil aðsókn, einungis 13 og 14 ára börn sem hafa sótt í hann. Þannig að við höfum ekki verið með stóran hóp í vinnu fyrir sveitarfélagið á þessum aldri eða framhaldsskóla- og háskólaaldri. Við erum að skoða aukin verkefni og það snýr meðal annars að útivistarsvæðum, gönguleiðum, göngustígagerð, opnum svæðum í þéttbýli og dreifbýli. Þannig að við erum að huga að ýmsum verkefnum sem höfða til breiðari aldurshóps,“ segir Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri á Hornafirði.

Það styttist í annarlok hjá Írisi Mist Björnsdóttur, nema í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn. Hún er svo heppin að hafa sumarvinnu á veitingastaðnum Pakkhúsinu en mögulega verður lítið í veskinu næsta haust. „Þetta hefur sannarlega valdið óvissu og við vitum ekki hvort við fáum 50% vinnu eða 25% vinnu jafnvel,“ segir Íris. Vigdís María Geirsdóttir vinkona hennar er í sömu stöðu en hefur annað í bakhöndinni. Ágætt er að gera hjá sumum iðnaðarmönnum og þeir jafnvel fegnir að geta ráðið handlangara. „Ég gæti unnið hjá pabba mínum, hann er smiður og rekur fyrirtæki svo ég gæti kannski eitthvað hjálpað honum þó ég sé ekki algjör fagmaður í þeirri grein,“ segir Vigdís María. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV