Suður-afríski herinn á að halda fólki inni

22.04.2020 - 16:06
epa08334528 Members of the SAPS (South African Police Forces) search street people in a area used by the homeless to sleep and use drugs during the national lockdown following President Cyril Ramaphosa declaration of a National Disaster as a result of Covid-19 Coronavirus, Johannesburg, South Africa, 30 March 2020. (issued 31 March 2020) The military aided by South Africa Police Forces paroled the streets of downtown and gathered the homeless and street peoples who need to be relocated to shelters. Although the homeless are being given shelters by the local city authorities they are not forced to stay in them.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
Illa hefur gengið að halda fólki inni, þrátt fyrir ströng fyrirmæli stjórnvalda. Mynd: EPA-EFE - EPA
Forseti Suður-Afríku áformar að fela her landsins að sjá um að landsmenn haldi sig heima meðan COVID-19 farsóttin geisar. Erfiðlega hefur gengið að fá fólk til að virða útgöngubannið.

Þetta kemur fram í bréfi sem Cyril Ramaphosa forseti sendi suðurafríska þinginu og stjórnarandstöðuþingmaður birti á Twitter. Þar segist hann áforma að fela 73.180 hermönnum að sjá til þess að fólk virði strangt útgöngubann sem hefur verið í gildi síðastliðnar fjórar vikur. Því verður ekki aflétt fyrr en í fyrsta lagi um næstu mánaðamót.

Fólki er meðal annars bannað að fara út og skokka eða viðra hunda sína. Þá er bannað að selja áfengi. Erfiðlega hefur gengið að halda fólki inni, sér í lagi í útborgum blökkumanna og ólögleg áfengissala viðgengst, jafnvel með þátttöku lögreglumanna.

Varnarmálaráðherra Suður-Afríku staðfesti í dag að til stæði að fela yfir sjötíu þúsund manns úr varaliði hersins að sjá til þess að fólk héldi sig heima. Grípa þyrfti til örþrifaráða þar sem farsóttin hefði breiðst hratt út að undanförnu. Fólk yrði að virða fyrirmæli stjórnvalda.

Hátt í 3.500 tilfelli kórónuveirusmits hafa verið greind í Suður-Afríku til þessa. 58 eru látnir.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV