Sjóarinn síkáti ekki haldinn í ár

22.04.2020 - 10:06
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Aðstandendur hátíðarinnar Sjóarans síkáta, sem farið hefur fram í Grindavík á sjómannadaginn í aldarfjórðung, hafa ákveðið að ekkert verði af hátíðinni í ár. Það er vegna fjöldatakmarkana sem enn verða í gildi vegna COVID-19 faraldursins. Þetta er aðeins í þriðja skipti sem ekki verða formleg hátiðarhöld í Grindavík á sjómannadag frá árinu 1948. Árin 1952 og 1987 voru hátíðarhöld felld niður vegna sjóslysa. Víðar á landinu eru áform um sjómannadag nú til endurskoðunar í ljósi aðstæðna.

Sjóarinn síkáti átti að fara fram í 25. sinn um sjómannadagshelgina. Þetta hefur verið fyrsta bæjarhátíð sumarsins og þúsundir sótt Grindavík heim. Í ljósi þess að áfram verða fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 faraldursins hafa aðstandendur hátíðarinnar ákveðið að hátíðin verði ekki haldin í ár. Ekki verður heldur af ýmsum atburðum tengdum sjómannadegi, svo sem sjómannadagsmessu, þar sem þá hefði þurft að hleypa sumum að en öðrum ekki. Aðstandendur töldu að sjómannadagur væri dagur allra Grindvíkinga og því ekki hægt að gera upp á milli þeirra. 

Ljóst er að fjöldatakmarkanir setja svip sinn á ýmis hátíðahöld í sumar, bæjarhátíðir og sjómannadaginn auk sumardagsins fyrsta. Bolungarvík hefur glimt við COVID-19 faraldur og þar ætla skipuleggjendur sjómannadagshátíðarhalda að meta stöðuna þegar nær dregur, og ákveða þá hvað sé hægt að gera. Í Reykjavík hefur Hátíð hafsins verið haldin um árabil og dregið marga að. Aðstandendur hennar koma saman til fundar í dag og ræða framhaldið. 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi