Setja hálfan milljarð í matvælasjóð

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Alþingi
Til stendur að verja 500 milljónum króna í stofnun Matvælasjóðs á þessu ári. Markmið með sjóðnum er að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu. Stofnun sjóðsins er hluti af öðrum áfanga aðgerða stjórnvalda til að bregðast við áhrifum veirufaraldursins. 

Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir á Alþingi. 

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að unnið hefur verið að stofnun sjóðsins undanfarið ár í ráðuneytinu en ákveðið var að flýta vinnu við að setja sjóðinn á fót sem hluta af aðgerðum til að skapa efnahagslega viðspyrnu þegar þetta tímabundna ástand er gengið yfir.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV