Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sá tvo erlenda ferðamenn við Mývatn

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
„Við áttum að vera að taka á móti 100 eldri borgurum núna. Og nú væri lokafrágangur á bókunum sumarsins og það væri að byrja að streyma til okkar fólk til að vinna og við værum að koma öllu í gang. En það er svolítið annað uppi á teningnum núna,“ segir Yngvi Ragnar Kristjánsson, hótelstjóri á Sel hóteli Mývatn, um stöðuna sem er uppi vegna kórónuveirufaraldursins. Engir ferðamenn hafa verið á hótelinu í heilan mánuð, en Yngvi sá þó tvo erlenda ferðamenn á svæðinu í gær.

Hótelið hefur verið lokað síðan um miðjan mars, enda hefur lítið sem ekkert verið að gera.

„Maður er bara eins og björninn, skríður í híði og bíður af sér veðrið,“ sagði Yngvi í Morgunþættinum í morgun.

Og þú veist ekkert hvenær því slotar?

„Nei því miður veit það enginn akkúrat núna. Þetta eru mjög sérstakir tímar sem maður upplifir. Við höfum gengið í gegnum ýmsar kreppur og sveiflur í gegnum árin. Fyrirtækið okkar er búið að vera starfandi síðan 1973 þannig að það er ýmislegt búið að upplifa. En við höfum aldrei upplifað eins og núna, að vita ekki hvað er framundan.“

Það lýsir ástandinu kannski ágætlega, að það kom Yngva spánskt fyrir sjónir þegar hann sá tvo erlenda ferðamenn við Mývatn í gær.

„Ég veit ekki hvaðan þeir komu eða hvernig þá bar til, en þeir voru hérna,“ segir hann í léttum dúr.

Fyrir 17. júní

Yngi veit ekki hvenær hann getur opnað hótelið að nýju.

„Ég er mjög bjartsýnn maður að eðlisfari. Planið var alltaf að opna síðustu vikuna í maí þegar maður færi að sjá hvernig þetta þróaðist. En því miður færist þetta alltaf aðeins aftar og aftar. En ég vona nú að við verðum allavega búin að opna fyrir 17. júní.“

Aðspurður segist Yngvi vona að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands í sumar.

„Þetta veltur allt saman á þessari gulu sól sem er hérna uppi á himninum. Íslendingar ferðast mjög mikið eftir veðri. Þannig að það er bara happdrætti, hvar Íslendingarnir lenda. Innst inni reikna ég kannski ekki með rosalega mörgum Íslendingum inn á hótelið í gistingu. Það er meira í eðli okkar að vera á tjaldstæðum og í sumarbústöðum. En ég reikna með talsverðri umferð hérna á svæðinu, Mývatnssveit er frábært útivistarsvæði og einstök náttúruperla þannig að ég reikna með að við getum sinnt talsvert mörgum í veitingum og annarri þjónustu.“

Þegar allt fer á fullt

En ertu reiðubúinn til þess að bjóða fólki þokkalega hagstæð kjör, kannski öðruvísi en þú hefðir ella boðið gestum í sumar?

„Þessi tími núna er bara þannig að maður verður að spila allt dag frá degi og viku til viku, þannig að það verður örugglega allt uppi á teningnum í því.“

Yngvi segir að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til hafi hjálpað til.

„Við vitum að þetta verða þungir tímar rekstrarlega og það er nauðsynlegt að koma með fjármagn að þessari grein til þess að halda henni gangandi, eða réttara sagt til þess að hún sé til staðar aftur þegar allt fer á fullt.“