Með okkar augum fjallar um COVID-19

22.04.2020 - 12:24
Mynd: Með okkar augum / RÚV
Með okkar augum verður í sjónvarpinu á RÚV í kvöld klukkan 20 með sérstakan þátt um kórónuveiru-faraldurinn. Þar verður talað við þríeykið vinsæla sem eru Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Það verða líka viðtöl við fræga Íslendinga eins og Ara Eldjárn, Helga Björns, Regínu Ósk og Þorgrím Þráinsson.

Jón Ársæll Þórðarson fékk kórónuveiruna og varð mjög veikur. Andri Freyr Hilmarsson tók viðtal við hann sem verður sýnt í þættinum í kvöld. Jón Ársæll segir: „Hún lék mig mjög illa, ég varð mjög veikur og gat ekki á heilum mér tekið í marga, marga daga. Ég er búinn að vera alveg ómögulegur í mánuð.“ Hann er búinn að ná sér eftir veikindin og er aftur orðinn hress.

Þegar Jón Ársæll veiktist var hann nýkominn frá New York. Hann veit að hann smitaðist þar en veit ekki hvernig það gerðist. Hann segist hafa hitt marga, meðal annars náunga sem hét Dónald. „Ég hitti hann fyrir framan turninn sinn á einni aðalgötunni og hann vildi endilega fá að faðma mig og taka mynd af okkur, en svo var ég rukkaður um fimm dollara fyrir myndina,“ segir Jón Ársæll léttur í bragði.

Mynd með færslu
 Mynd: Með okkar augum - RÚV

Hann fékk háan hita og varð svo veikur að hann þurfti að fara á spítala. Hann segist hafa orðið mjög hræddur. „Svo verður maður að passa sig líka,“ segir Jón Ársæll. „Mér finnst fólk vera orðið hrætt við hvert annað eftir að flensan reið yfir.“ Hann segir að þetta hafi kennt honum að maður á að elska lífið, og þakka fyrir hvern einasta dag. Hann er líka þakklátur öllu því góða fólki sem hlynnir að þeim veiku. Að lokum segir hann: „Svo má ekki gleyma að það eru margir sem eiga um sárt að binda, og hugur okkar er hjá þeim.“

orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi