Lýsi hf. ekki heimilt að halda fram heilsufullyrðingum

Lýsispillur.
 Mynd: Pixabay
Matvælastofnun hefur gefið Lýsi hf. fyrirmæli um að hætta að nota heilsufullyrðingar við markaðssetningu fæðubótarefnisins „Fríar fitusýrur og þorskalýsi.“ Fyrirtækið hefur í markaðssetningu gefið til kynna að neysla vörunnar gæti verið gagnleg meðal annars gegn kórónuveiru og til að fyrirbyggja smit.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram hér eins og annars staðar í Evrópu megi aðeins nota heilsufullyrðingar við markaðssetningu matvæla sem eru á lista Evrópusambandsins yfir leyfilegar fullyrðingar.  

Upplýsingar sem gefi til kynna að neysla matvöru hafi áhrif á heilsu sé heilsufullyrðing í skilningi laganna, hvort sem upplýsingarnar komi fram á matvörunni sjálfri eða notaðar við markaðssetningu hennar. Þar var gefið til kynna að neysla vörunnar gæti verið gagnleg við að eyðileggja hjúpaðar veirur, svo sem herpes, RS og kórónaveirur, og fyrirbyggja smit.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að Lýsi hf. hafi upplýst stofnunina um að það hafi hætt kynningu á vörunni á vef sínum og upplýst söluaðila um að þeim beri að fjarlægja slíkt kynningarefni.

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi