Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Íslendingar eru ekki bara Homo sapiens“

epa01671044 The reconstruction of a Neanderthal woman (R) and man (L) at the Neanderthal Museum of Mettmann, Germany, 20 March 2009. As spring is here, the Neanderthal man gets the company of a woman - red-haired and in her twenties - who wears her most
 Mynd: EPA - DPA
Íslendingar eru ekki bara menn, þeir bera líka erfðaefni Neandertalsmanna og Denisova. Þetta sýnir ný rannsókn. 

Samtals með helming erfðamengis Neanderdalsmanna

Alls má rekja um 2 prósent af erfðamengi hvers Íslendings aftur til Neanderdalsmanna. Þetta sýnir ný rannsókn vísindamanna íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsmanna þeirra við Árósaháskóla Í Danmörku.
Neanderdalsmenn bjuggu í Evrópu og eru taldir hafa dáið út fyrir 28 þúsund árum. Þeir líktust okkur en voru lægri, stórskornari og þéttvaxnari en nútímamenn almennt. 

Íslendingar bera ekki allir sömu bútana úr erfðamengi þessara útdauðu skyldmenna okkar. Þannig væri hægt að púsla saman um helmingi af erfðamengi Neanderdalsmanns með því að nota þá forsögulegu erfðabúta sem finnast í núlifandi Íslendingum og í Evrópubúum almennt. 

Mikilvægt innlegg í leitina að upprunanum

Rannsóknin birtist í dag í vísindatímaritinu Nature og er sú stærsta sinnar tegundar. Með því að raðgreina erfðamengi var reynt að varpa ljósi á kynblöndun sem átti sér stað milli Neanderdalsmanna og okkar tegundar, Homo Sapiens fyrir 50 þúsund árum. Alls voru skoðuð erfðamengi 28 þúsund Íslendinga. 

Það kom einnig skýrt fram í rannsókninni að hægt er að rekja búta úr erfðamengi Íslendinga aftur til Denisovana, annarrar fornrar manntegundar sem að öllum líkindum blandaðist Neanderdalsmönnum áður en þeir fóru að blandast Homo sapiens. Erfðaefnið frá þessum forsögulegu tegundum hefur lítil áhrif á útlit eða heilsu núlifandi fólks, aðeins fundust fimm erfðabreytur sem hafa áhrif á hæð, virkni blöðruhálskirtils, stærð og styrk blóðrauða og hraða blóðstorknunar. Kári Stefánson, einn höfunda rannsóknarinnar, segir vitneskjuna mikilvægt innlegg í leitina að uppruna manneskjunnar, þetta sé ættarsaga einnar greinar mannkyns sem segi okkur að við séum ekki bara Homo sapiens heldur líka afkomendur annarra forsögulegra tegunda. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV