Hundrað milljóna sekt fyrir skattalagabrot

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag dæmdur til að greiða 107 milljónir króna í sekt fyrir stórfelld skattalagabrot. Hann var að auki dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi. Ef maðurinn greiðir ekki sektina verður hann að sæta eins árs fangelsi. Maðurinn var sakfelldur fyrir að halda eftir virðisaukaskatti og opinberum gjöldum af launum starfsfólks í fyrirtæki sem hann stjórnaði.

Brotin hófust í júní árið 2016 og stóðu fram í febrúar árið 2018. Á þeim tíma hélt hann eftir 31 milljón króna af opinberum gjöldum starfsmanna og tæpum 23 milljónum króna af virðisaukaskatti sem fyrirtækið innheimti af viðskiptavinum. Í stað þess að skila fénu í ríkissjóð nýtti maðurinn það í rekstur fyrirtækisins.

Maðurinn játaði þessi skattalagabrot en neitaði sök um peningaþvætti. Ákæruvaldið taldi manninn hafa gerst sekan um peningaþvætti með því að nota illa fengið féð í starfsemi fyrirtækisins. Því hafnaði maðurinn og dómari við Héraðsdóm Reykjaness sýknaði hann af þeim lið ákærunnar.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi