Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Furðaði sig á skipan nefndar um upplýsingaóreiðu

22.04.2020 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, furðaði sig á stofnun vinnuhóps sem ætlað er að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu vegna COVID-19. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé ábyrgðarhluti að kortleggja hvernig upplýsingum er komið á framfæri.

Í óundirbúinni fyrirspurn til forsætisráðherra velti hann því fyrir sér hver verkefni hennar eigi að vera. „Varla á að fara að ritskoða íslenska fjölmiðla? Er þá ætlunin sú að reyna að fylgjast með netinu og leiðrétta allt það bull sem kynni að finnast þar?“ 

Sigmundur Davíð segir þetta sérkennilegt í ljósi þess að almenningur sé vel upplýstur um farsóttina á daglegum upplýsingafundum almannavarna.

Katrín Jakobsdóttir svaraði að málið hefði verið rætt innan þjóðaröryggisráðsins hér og að stofnun hópsins sé ekki óeðlileg. Eðlilegt sé að bregðast við upplýsingaóreiðu hér eftir sem hingað til, eins og gert sé víðast hvar annars staðar. Hún tók undir að upplýsingamiðlun almannavarna hafi verið til fyrirmyndar.

Hún talaði einnig um að fréttir breiðist öðruvísi um á öldum netsins. Dæmi séu um það í nágrannaríkjum um fréttir sem ekki standist skoðun um COVID-19.  Það sé ábyrgðarhluti að kortleggja hvernig upplýsingum er komið á framfæri hér á landi.  

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV