Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dauðsföll í Englandi mun fleiri en gefið er upp

22.04.2020 - 04:53
Erlent · Heilbrigðismál · Bretland · COVID-19 · England · Wales · Evrópa
epa08375687 An ambulance crew wear PPE (Personal Protective Equipment) as they deliver a patient to the Royal London Hospital in London, Britain, 21 April 2020. Britain's National Health Service (NHS) is experiencing a shortage of PPE due to the ongoing coronavirus COVID-19 pandemic. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Raunverulegur fjöldi dauðsfalla af völdum COVID-19 í Englandi og Wales var um 40 prósentum meiri en áður var greint frá. Þetta kemur fram í gögnum bresku hagstofunnar. Gögnin ná fram til 10. apríl, en unnið úr þeim rúmri viku síðar.

Opinberar tölur um fjölda dauðsfalla af völdum kórónuveirunnar tekur aðeins til þeirra sem láta lífið á sjúkrahúsum. Þeir sem önduðust á líknardeild, á dvalarheimilum eða heima hjá sér hafa ekki verið inni í opinberum tölum til þessa. 

Hagstofan birtir vikulega gögn um fjölda látinna af völdum kórónuveirunnar. Þar innan eru öll dauðsföll þar sem minnst er á kórónuveiruna í dánarvottorði. Síðast gaf hagstofan út skýrslu 18. apríl, yfir dauðsföll fram til 10. þessa mánaðar. Samkvæmt þeirra gögnum létu alls 13.121 lífið af völdum COVID-19 í Englandi og Wales til og með 10. apríl, en samkvæmt gögnum heilbrigðisyfirvalda voru dauðsföllin 9.288.

Myndin jafnvel enn dekkri

Útreikningar Financial Times gefa enn dekkri mynd af ástandinu í Bretlandi. Stuðst er við gögn hagstofunnar, þar sem einnig kemur fram að fylgni á milli dauðsfalla á sjúkrahúsum hefur haldist stöðug við þá sem hafa látið lífið utan þeirra af völdum COVID-19. Tölfræðin í Skotlandi og Norður-Írlandi hefur verið svipuð þeirri í Englandi og Wales. Að þessum forsendum gefnum telur FT að yfir 40 þúsund séu að öllum líkindum látnir af völdum sjúkdómsins í Bretlandi það sem af er.

Samkvæmt breskum yfirvöldum eru nú rúmlega 17.300 látnir af völdum COVID-19. Tilfellin eru rúmlega 130 þúsund.