Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bændur í Fljótum muna vart leiðinlegri vetur

22.04.2020 - 22:15
Mynd með færslu
Svona var staðan á Brúnastöðum í lok apríl. Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Bændur í Fljótum í Skagafirði muna vart eftir erfiðari vetri. Hver lægðin á fætur annari hefur dunið á sveitina frá því um miðjan desember og þar gæti heyskapur tafist um meira en mánuð vegna snjóþyngsla.

„Aldrei neinn friður“

„Veturinn hefur verið bara í einu orði sagt leiðinlegur, hundleiðinlegur. Svona frá því um miðjan desember og þangað til fram að páskum, þetta var einn sá leiðinlegasti vetur sem að ég held ég muni eftir, svona veðurfarslega séð. Það var aldrei neinn friður, alltaf rok úr einhverjum áttum og ófærð og þannig lagað leiðinlegt sko,“ segir Jóhannes.

Nú er sumardagurinn fyrsti í þessari viku. Það er nú ekkert voðalega sumarlegt um að litast hérna núna?

„Nei, ekki hvað snjóinn varðar en það er náttúrlega gott veður og allt það en vorið er nú að koma þannig að það er af þónokkru að taka enn þá.“

Bændur í Fljótum öllu vanir

Jóhannes segir að bændur í Fljótum séu öllu vanir þegar kemur að vondum veðrum. Veturinn 2013 reyndist mörgum erfiður og tafði heyskap um rúman mánuð. Hann er því nokkuð bjartsýnn á framhaldið, svo fremi sem hlýindin haldi áfram. 

„Þetta verður náttúrlega allt svona mánuð á eftir áætlun, sem má búast við en þetta hefst nú alltaf yfirleitt. Hvaða áhrif hefur það á búskapinn að lenda í þessum seinkunum? Það verður náttúrlega svolítið töff sauðburður, það eru náttúrlega allar girðingar á kafi í snjó og það þarf að gefa lengi fram eftir en við svo sem erum alveg undir það búin. Við vitum alveg að það verður erfitt.“