65 milljónir í verkefni á Raufarhöfn og Bakkafirði

22.04.2020 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Af 200 milljóna viðbótarframlagi úr Framkvæmdastjóð ferðamannastaða, fara 65 milljónir til tveggja verkefna á Raufarhöfn og Bakkafirði. Samtals hafa 48 verkefni víða um land hlotið styrki úr sjóðnum í ár.

Þessi viðbótarfjárveiting er hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Stærstur hluti úthlutunarinnar, eða 43 prósent, rennur til verkefna á Norðurlandi eystra. 28 prósent fara til verkefna á Suðurlandi, meðal annars í gönguleiðir og hjólastíga í Vestmannaeyjum, Hornafirði og Skálholti, samtals um 50 milljónir.

21 milljón í gönguleiðir á Glerárdal

Á Norðurlandi fær Akureyrarbær 21 milljón í gönguleiðir á Glerárdal, en tveir stærstu styrkirnir fara í Langanesbyggð og Norðurþing. 35 milljónir fara í áframhaldandi uppbyggingu Heimskautsgerðisins við Raufarhöfn og þá eru 30 milljónir veittar til að bæta aðstöðu fyrir ferðafólk á Tanganum á Bakkafirði.

Verslunarsögu Bakkafjarðar gerð skil

Þar verður við gömlu höfnina og gamla verslunarhúsið skipulagt svæði og sögu verslunar við Bakkafjörð gerð skil. Þá er hugmynd að gera þar á tanganum náttúrulaug úr grjóti með heitu vatni. Þessu verkefni er ætlað að efla ferðamennsku og um leið að styrkja byggð á Bakkafirði.

Eftirtalin verkefni hlutu styrki:

- Torfhúsin í Hjarðarhaga á Jökuldal - 1.243.100
- Tengileið Mógilsá/Kollafjarðará - 17.000.000
- Stígagerð og brúun í fólkvangnum á Glerárdal - 21.485.000
- Hafnartangi á Bakkafirði, áningarstaður við ysta haf - 30.000.000
- Bifröst við Heimskautsgerðið á Raufarhöfn - 35.000.000
- Göngu- og hjólastígur milli Svínafells og Skaftafells - 12.000.000
- Gönguleið með vesturströnd Heimaeyjar - 6.180.000
- Lagfæringar á gönguleið í Dalfjalli á Heimaey - 13.000.000
- Áningarstaður við Gýgjarfoss - 2.412.620
- Aukið öryggi við útsýnisstopp hjá Eyjafjallajökli - 3.512.800
- Þorláksleið, gönguleiðaverkefni við Brúará - 19.000.000
- Aðkomusvæði við Skagagarð, nýr ferðamannastaður - 11.680.000
- Göngustígur frá Kirkju að höfn í Garði - 3.040.000
- Útisvæði við Gestastofu Snæfellsness - 7.607.000
- Minningarreitur um sagnaritarann Sturlu Þórðarson - 16.158.307