Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðbúnaður aukinn í Mexíkó vegna COVID-19

21.04.2020 - 17:53
epa08375885 Groups of health workers protest to denounce the death of several specialists for not having the basic protection equipment during the care of patients with coronavirus, outside a hospital in Mexico City, Mexico, 21 April 2020.  EPA-EFE/Jorge Nunez
Heilbrigðisstarfsfólk í Mexíkó mótmælir því að fá ekki nægan hlífðarbúnað til að meðhöndla COVID-19 sjúklinga. Mynd: EPA-EFE - EFE
Heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó hafa hækkað viðbúnaðarstig vegna sívaxandi fjölda kórónusmitaðra landsmanna. Forsetinn er sakaður um að hafa brugðist seint og illa við COVID-19 farsóttinni og að vera öðrum slæm fyrirmynd.

Aðstoðarheilbrigðisráðherra Mexíkós greindi frá því í dag að viðbúnaður hefði verið aukinn. Staðfestum tilfellum fjölgaði stöðugt og sömuleiðis innlögnum á sjúkrahús.

Stjórnvöld hafa aflýst allri starfsemi sem ekki eflir efnahag landsins til 30. maí. Útgöngubann hefur ekki verið fyrirskipað en fólk beðið að halda sig heima og halda sig í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru fari það út.

Andrés Manuel Lopez Obrador, forseti landsins, er sagður hafa sofið á verðinum þegar COVID-19 farsóttin blossaði upp víða um heim. Mannréttindavaktin hefur sakað hann um að gefa landsmönnum hættulegt fordæmi með því að halda fjöldafundi og taka í hendur fundarmanna og faðma þá þrátt fyrir að mælst hafi verið til þess að gera slíkt ekki.

Hátt í 8.800 kórónuveirutilfelli hafa verið staðfest í Mexíkó til þessa. COVID-19 sjúkdómurinn hefur dregið 712 til dauða í landinu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV