Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Veislur, vændiskonur og dauðarefsingar í Brúnei

Mynd: EPA / EPA

Veislur, vændiskonur og dauðarefsingar í Brúnei

21.04.2020 - 14:27

Höfundar

Elton John og George Clooney voru á meðal þeirra sem beittu sér fyrir því að Hassanal Bolkiah, soldáninn af Brúnei, hætti við áform um að framfylgja dauðarefsingum við samkynhneigð og framhjáhaldi. Vera Illugadóttir segir frá valdatíð soldánsins og sögum um vændiskonur og fyrirsætur sem hann er sagður loka í kvennabúri sínu.

Í Brúnei Darusalam, sem er smáríki á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu, ræður ríkjum soldáninn Hassanal Bolkiah. Í 53 ár hefur hann verið við völd, lengst allra núlifandi einvalda að undanskyldri Elísabetu II. Bretlandsdrottningu. Soldáninn er einvaldur á öllum sviðum enda er hann í senn forsætisráðherra, varnarmálaráðherra og fjármálaráðherra auk þess sem hann er yfirmaður hersins, yfirmaður lögreglunnar og rektor þriggja helstu háskóla landsins.

Veislusalur, hestar, bílar og sundlaugar

Brúnei er auðugt land og samkvæmt lista Forbes er það fimmta ríkasta land heims enda býr ríkið yfir digrum olíusjóðum. Frá því landið varð sjálfstætt frá Bretum 1984 hefur Hassanal gjarnan verið kallaður ríkasti maður heims þó ekki sé vitað með fullri vissu hversu mikil nákvæmlega auðævi hans eru. Það er allavega ljóst að soldáninn lifir afar hátt og fjölskylda hans býr ekki við neinn veraldlegan skort. Vera Illugadóttir var gestur Morgunþáttar Rásar 1 og 2 og sagði hún frá soldáninum af Brúnei. „Hann býr í höll sem hefur verið kallað stærsta einbýlishús heims. Það eru 200 þúsund fermetrar og þar eru 1.788 herbergi, veislusalur sem rúmar 3.500 gesti, moska fyrir annað eins, bílageymsla fyrir 110 bíla, hesthús fyrir 200 gæðinga, fimm sundlaugar og ýmislegt fleira sem hægt er að skemmta sér við,“ segir hún um heimkynni soldánsins. 

Kvennabúr og spilavíti

Árið 1997 varð mikill titringur innan fjölskyldunnar þegar bróðir Hassanal sakaði soldáninn um að draga að sér fé úr olíusjóðnum sem hann átti að hafa notað til að kaupa sér mikið listaverkasafn, fjölda hótela í Evrópu og flugvél sem hann hafði til einkanota. Þó flest benti til þess að ásakanirnar væru á rökum reistar voru afleiðingar engar fyrir einvaldinn sem tókst að semja við bróður sinn um að hann þyrfti ekki að borga allt til baka, „enda hefur eldri bróðirinn tekið þátt í þessu líferni yngri bróðurins þó það fari ekki eins hátt,“ segir Vera. „Þeir voru á yngri árum tíðir gestir í spilavítum og klúbbum í London. Svo fara sögur af því að þeir hafi stundað það að láta flytja fyrirsætur og vændiskonur og annað kvenfólk með flugi til Brúnei sem þeir svo héldu í einhvers konar kvennabúrum heimafyrir, þó soldánsfjölskyldan í Brúnei vilji meina að þeir séu nokkuð strangtrúaðir múslimar.“

Lét undan pressu frá Elton John og George Clooney

Brúnei komst síðast í heimsfréttirnar þegar soldáninn lýsti því yfir að hann vildi setja harðari viðurlög og helst dauðarefsingu við samkynhneigð og framhjáhaldi. „Þetta vakti athygli um allan heim, ekki síst vegna þess að soldánsfjölskyldan í Brúnei á ýmis lúxushótel og annað hér og þar um heiminn,“ segir Vera. Ýmis frægðarmenni risu upp og mótmæltu aðgerðunum opinberlega með því að hóta því að stunda engin viðskipti við hótel fjölskyldunnar. Einnig lýstu stórar ferðaskrifstofur því yfir að ekki yrðu auglýstar neinar ferðir til Brúnei ef þessum lögum yrðu framfylgt. „George Clooney og Elton John fóru mikinn í þeirri baráttu í fyrra og virðist hafa borið árangur því soldáninn lýsti því yfir að þó þessi lög yrðu sett í bækur yrði þeim ekki framfylgt. Enginn yrði dæmdur til dauða fyrir samkynhneigð í ríkinu.“

Rætt var við Veru Illugadóttur í Morgunþætti Rásar 1 og 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ellefu bestu þættir Í ljósi sögunnar

Bókmenntir

Mesti bókaþjófnaður í sögu Danmerkur ráðgáta í áratugi