Trump vill kaupa 75 milljónir tunna af olíu

21.04.2020 - 00:37
epa08374375 US President Donald J. Trump (R) speaks during a coronavirus task force news conference at the White House in Washington, DC, USA, 20 April 2020.  EPA-EFE/Tasos Katopodis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hyggst beita sér fyrir því að alríkisstjórnin noti tækifærið nú þegar olíuverð er í sögulegu lágmarki og kaupi 75 milljónir tunna af olíu til að fylla á vara- og neyðarbirgðir sínar. „Við erum að bæta í varabirgðirnar okkar, neyðarbirgðirnar," sagði forsetinn á upplýsingafundi Hvíta hússins á mánudagskvöld. „Og við ætlum að bæta allt að 75 milljónum tunna í þær birgðir." Trump tók fram að þetta yrði því aðeins gert að fjárveiting fengist frá þinginu.

Verðhrun á olíu

Olíuverð hrundi á mánudag og hefur aldrei verið lægra. Lítið hefur verið dregið úr framleiðslu og geymslupláss gæti því verið uppurið á næstu vikum. Því grípa framleiðendur til þess að borga með olíunni, en samkvæmt CNN fengust um tíma mest 37 dollarar fyrir að taka við og geyma olíutunnu til afhendingar í maí, mun meira en fæst fyrir olíutunnuna sjálfa. Verst varð bandarísk olía úti í verðhruninu en Norðursjávarolía lækkaði um 8 prósent.

Hámarksbirgðir 713,5 milljónir tunna

Trump greindi frá því um miðjan mars að hann ætlaði sér að barmafylla varatanka bandaríska alríkisins af olíu. Í frétt AFP segir að 635 milljónir tunna hafi verið í varabirgðunum þann 17. apríl, en leyfilegt hámark sé 713,5 milljónir tunna. Birgðirnar eru geymdar í fjórum stórum og margslungnum neðanjarðarbyrgjum á ströndum Texas og Louisiana, sem rúma að hámarki 727 milljónir tunna. Til þeirra má aðeins grípa í neyð, og má nefna Íraksstríðið 1991 og fellibylinn Katrinu 2005 sem dæmi um slík tilfelli. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi